Samið um áframhaldandi stuðning við Blábankann
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Ketill Berg Magnússon, stjórnarformaður Blábankans, hafa undirritað samning um áframhaldandi stuðning ráðuneytisins við rekstur Blábankans, nýsköpunar- og samfélagsmiðstöðvar á Þingeyri.
Blábankinn var settur á laggirnar árið 2017 og er hlutverk hans að vera vettvangur fyrir nýsköpun og sjálfbærni. Með samningi sem undirritaður var í september 2017 hefur samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið stutt við reksturinn í gegnum byggðaáætlun. Tilgangurinn var að stofna þjónustukjarna og atvinnu- og þekkingasetur á Þingeyri. Að sögn Ketils hefur verkefnið gengið vel. „Aðstæður til atvinnu hafa breyst og ný verkefni og störf hafa orðið til. Samstarf einkaaðila og opinberra aðila hefur gengið mjög vel og er mikilvæg forsenda fyrir góðu gengi“ segir Ketill.
„Blábankinn er orðin fyrirmynd fyrir samfélagsmiðstöðvar í fámennum byggðum. Ráðuneytið vill leggja sitt af mörkum til að efla það hlutverk, enda hafa þær sannað mikilvægi sitt“ sagði Sigurður Ingi við undirritunina.
Markmið með nýjum samningi er að styðja við rekstur Blábankans og efla hann sem fyrirmynd fyrir sambærilegar miðstöðvar víða um land. Meðal verkefna sem kveðið er á um í samningnum má nefna að vera tengiliður íbúa Þingeyrar við Ísafjarðarbæ, nýta húsnæðið til að efla þjónustu, námskeið og fræðsla til íbúa, bjóða upp á starfsaðstöðu til lengri eða skemmri tíma, þ.m.t. fyrir störf án staðsetningar, smærri og stærri viðburði, sköpunarsmiðja, vettvangur fyrir samtök íbúa og að vera fyrirmynd fyrir aðrar sambærilegar miðstöðvar.
Heildarframlag ráðuneytisins til samningsins er 11.250.000 á árunum 2022-2024 eða 3.750.000 á ári. Ísafjarðarbær styður við rekstur Blábankans með sama hætti, auk einkaaðila.