Hoppa yfir valmynd
20. ágúst 2021 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins funduðu um Afganistan

Frá fundinum í dag - myndNATO

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra tók í dag þátt í fjarfundi utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins um Afganistan. Á fundinum var farið yfir þá alvarlegu stöðu sem upp er komin vegna valdatöku talibana.  

„Afganska þjóðin hefur fært miklar fórnir á síðustu tuttugu árum til að koma á friði og umbótum, bæta öryggi, mannréttindi, aðgengi að menntun og stöðu kvenna og stúlkna. Aðstoð alþjóðasamfélagsins byggist á ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna og hlutverk Atlantshafsbandalagsins undanfarin ár hefur verið að veita þjálfun og ráðgjöf á sviði öryggis- og varnarmála. Sú staða sem upp er komin í landinu er því áfall og hætt við að kastað verði á glæ þeim framförum sem orðið hafa í landinu á þessum tíma,“ segir Guðlaugur Þór.  

Í yfirlýsingu fundarins kemur fram að bandalagið leggi nú allt kapp á að flytja ríkisborgara bandalags- og samstarfsríkja frá Afganistan sem og afganska ríkisborgara sem er í sérstakri hættu, sérstaklega þau sem starfað hafa fyrir bandalagið. Þá muni bandalagið leggja mat á þann lærdóm sem það geti dregið af málinu. Í yfirlýsingunni er kallað eftir því að nýir valdhafar í Afganistan virði alþjóðlegar skuldbindingar landsins, mannréttindi og réttindi kvenna, barna og minnihlutahópa. Tryggja þurfi óheftan aðgang mannúðaraðstoðar.  

„Lærdómurinn af Afganistan verður nú eitt mikilvægasta verkefni þeirra fjölmörgu aðila, ríkja, alþjóðastofnana og félagasamtaka sem hafa starfað í landinu undanfarna tvo áratugi. Við uppbyggingu Afganistans verður að tryggja að það verði ekki aftur griðastaður hryðjuverkamanna og það er mjög snúið að byggja aftur upp við þær erfiðu aðstæður sem þarna eru.“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson.

  • Frá fundinum í dag - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta