Aðgerðir til að bæta mönnun á gjörgæsludeildum spítalanna
Landspítala verður veitt aukið fjármagn til að fjölga stöðugildum gjörgæslu- og svæfingalækna um tvö og bæta við einu stöðugildi sérnámslæknis á gjörgæsludeild. Bætt verður við fjármagni sem gerir kleift að fjölga hjúkrunarfræðingum sem hyggja á nám í gjörgæsluhjúkrun og opnað verður fyrir aðgang allra hjúkrunarfræðinga sem vilja sérhæfa sig í gjörgæsluhjúkrun til að sækja um Basic ICU þjálfun í hermisetri Landspítala. Enn fremur verður hjúkrunarfræðingum sem starfa á gjörgæslu tryggð símenntun árlega. Heilbrigðisráðherra hefur fallist á tillögur landsráðs um mönnun og menntun heilbrigðisstétta þessa efnis.
Covid-19 faraldurinn hefur leitt í ljós þörf fyrir að fjölga gjörgæslurýmum eða hágæslurýmum á Landspítala. Vegna skorts á sérhæfðu starfsfólki hefur ekki verið unnt að hafa öll gjörgæslurými á spítalanum opin en á nýjum Landspítala er gert ráð fyrir að 23 rými verði á gjörgæsludeildinni og tryggja þarf að unnt verði að manna hana.
Landsráð um mönnun og menntun heilbrigðisþjónustu hefur skilað heilbrigðisráðherra tillögum um aðgerðir til að tryggja betur mönnun á gjörgæslu og hefur ráðherra fallist á tillögur ráðsins.
Tillögurnar eru eftirfarandi:
- Tveimur hjúkrunarfræðingum verður gert kleift að hefja tveggja ára nám í gjörgæsluhjúkrun, til viðbótar þeim 20 sem hefja nám í haust.
- Basic ICU námskeið í hermisetri Landspítala sem hingað til hafa einungis staðið til boða hjúkrunarfræðingum á gjörgæsludeildum spítalans verða opnuð fyrir alla hjúkrunarfræðinga sem vilja sérhæfa sig eða viðhalda þekkingu sinni í gjörgæsluhjúkrun. Þannig megi byggja upp grunnþjálfun og þekkingu fleiri hjúkrunarfræðinga á þessu sviði og auðvelda mönnun þegar á þarf að halda.
- Hjúkrunarfræðingum sem starfa á gjörgæslu verði tryggð símenntun árlega. Þetta verður útfært nánar í samvinnu Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri.
- Landspítala verður veitt fjármagn til að bæta við tveimur stöðugildum gjörgæslu- og svæfingarlækna á gjörgæsludeild og einu stöðugildi sérnámslæknis.