Samantekt um sögu Jafnréttisráðs 1976-2020 komin út
Tekin hefur verið saman saga Jafnréttisráðs frá stofnun þess 1976 fram til árloka 2020 þegar ráðið var lagt niður með nýjum jafnréttislögum nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.
Í samantektinni sem unnin var af Jakobi Snævari Ólafssyni, meistaranema í sagnfræði, fyrir forsætisráðuneytið er saga Jafnréttisráðs rakin yfir tæplega 45 ára starfstímabil ráðsins og gefið yfirlit yfir þau fjölmörgu verkefni sem ráðið sinnti. Því er lýst hvernig umfang jafnréttismála hefur aukist jafnt og þétt frá stofnun Jafnréttisráðs, bæði almennt í samfélaginu sem og innan stjórnsýslunnar. Farið er yfir hvernig jafnréttismál hafi verið á jaðri íslensks samfélags og stjórnmála við stofnun Jafnréttisráðs 1976 en í árslok 2020 verið orðinn viðamikill málaflokkur, samtvinnaður stefnumótun stjórnvalda á flestum málefnasviðum.
Frá stofnun ráðsins hefur verkefnum sem stuðla að jafnrétti fjölgað á dagskrá stjórnvalda, stjórnsýsla jafnréttismála verið efld á ýmsa vegu og stjórnvöld sýnt sífellt meira frumkvæði innan málaflokksins. Í niðurstöðukafla samantektarinnar kemur meðal annars fram að tímabært hafi verið að ljúka sögu Jafnréttisráðs í árslok 2020, enda megi segja að ráðið hafi skilað sínu hlutverki.
Samantektin er því bæði yfirlit yfir sögu Jafnréttisráðs og yfirlit yfir stöðu og þróun jafnréttismála almennt sem og stofnanaumgjarðar jafnréttismála.
Jafnréttisráð 1976-2020 - Skipan, hlutverk og verkefni í 45 ár