Hoppa yfir valmynd
1. september 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Þurfum að stórbæta þekkingu á jarðfræði alls landsins

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, Þorkell Lindberg Þórarinson forstjóri Náttúrufræðistofnunnar Íslands, Herdís Helga Schopka sérfræðingur og Árni Magnússon, forstjóri ÍSOR. - mynd

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, ÍSOR og Náttúrufræðistofnun Íslands stóðu í dag fyrir málþingi um átaksverkefni í jarðfræðikortlagningu og skráningu jarðminja. Á þinginu var kynntur rammasamningur sem ráðuneytið, ÍSOR og NÍ gerðu með sér í vor og hefur það markmið að efla samstarf stofnana sem sinna jarðfræðikortagerð og marka stefnu um framhald jarðfræðikortlagningar landsins.

Málþingið hófst með ávarpi Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, sem vakti máls á því að Ísland standi enn að miklu leyti á byrjunarreit í nákvæmri kortlagningu á jarðfræði landsins. Þó hefur verið lögð áhersla á kortlagningu á þeim landsvæðum þar sem orkuauðlindir er að finna.

„Atburðir undangenginna missera og ára hafa hins vegar sýnt okkur svo ekki er um að villast að gríðarleg þörf er á að beina kastljósinu í meiri mæli að öðrum þáttum í jarðfræði landsins. Skriðuföll og snjóflóð, landris vegna jöklabráðnunar og aðrar þær breytingar sem eru að verða á náttúrufari hérlendis í kjölfar hraðrar hlýnunar eru allt áskoranir sem við munum ekki geta ráðið við án stórbættrar þekkingar á jarðfræði alls landsins,“ sagði Guðmundur Ingi í ávarpi sínu.

Jarðfræðikortlagning er undirstaða og uppspretta þekkingar fyrir vísindastarf, skipulagsvinnu, orkuöflun, mat á jarðvá og auðlindanýtingu hvers konar.

Samningurinn, sem er framhald fyrri rammasamnings um sama efni, er grundvöllur fimm ára átaks í jarðfræðikortlagningu og skráningu jarðminja og leggur ráðuneytið 110 milljónir króna til verksins og stofnanirnar hluta af rekstrarfé sínu.

Á málþinginu voru meðal annars kynnt þau verkefni sem framundan eru. Nýi samningurinn miðar að því að kortlagningu Mið-Suðurlands, Eyjafjarðar og Norðausturlands ljúki á samningstímanum. Einnig verður unnið að frekari áföngum í kortlagningu annarra svæða, m.a. valinna svæða á Suðausturlandi, svæðisins milli Norðurgosbeltisins og Austfjarða og Snæfellsness.

Einnig var þar fjallað um verkefnin sem lokið var við í tíð fyrri rammasamnings, þ.e. jarðfræðikort af Vesturgosbeltinu, Mið-Íslandi og Austurlandi.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta