Hoppa yfir valmynd
2. september 2021 Utanríkisráðuneytið, Innviðaráðuneytið

Loftferðasamningur Íslands og Bretlands öðlast gildi

Loftferðasamningur milli Íslands og Bretlands öðlaðist formlega gildi í gær, 1. september. Samningnum hefur verið beitt til bráðabirgða frá síðustu áramótum fram að gildistöku og voru flugsamgöngur milli ríkjanna því tryggðar við útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og Robert Courts, ráðherra siglingamála og almannaöryggis í bresku ríkisstjórninni, undirrituðu samninginn í desember í fyrra. Hann öðlaðist formlega gildi í gær þegar ríkin skiptust á yfirlýsingum um lok fullgildingarferlis.

„Mikilvægi áreiðanlegra flugsamgangna við Bretland verður seint ofmetið, bæði með tilliti til vöruflutninga og ferðalaga fólks. Fullgilding loftferðasamningsins markar því tímamót og er enn ein varðan á leið okkar að tryggja traust og blómlegt samband þessara vinaþjóða til framtíðar,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.

Loftferðasamningurinn var gerður vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og var hann fyrsti langtímasamningurinn sem Ísland gerði við Bretland í tengslum við hana. Fram að því höfðu flugsamgöngur á milli Íslands og Bretlands byggst á þátttöku þeirra í Samevrópska flugsvæðinu (ECAA) sem byggist á EES-samningnum. Loftferðasamningur Íslands og Bretlands veitir sömu tvíhliða flugréttindi og verið höfðu með aðild þeirra að ECAA.

Frá því að loftferðasamningurinn var undirritaður hafa íslensk og bresk stjórnvöld náð langtímasamningum um ýmis sameiginleg hagsmunamál. Þar ber án efa hæst fríverslunarsamningurinn sem samkomulag náðist um í sumarbyrjun og var svo undirritaður í júlí.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta