Hoppa yfir valmynd
2. september 2021 Forsætisráðuneytið

Rætt um réttlát umskipti á fundi þjóðhagsráðs

Þjóðhagsráð kom saman til fundar í dag til að ræða um réttlát umskipti í vegferðinni í átt að kolefnishlutlausu samfélagi. Var þetta síðasti fundur ráðsins á þessu kjörtímabili.

Sérstakir gestir fundarins voru Guy Ryder, framkvæmdastjóri Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO), Richard Lochhead, ráðherra réttlátra umskipta og vinnumarkaðsmála í Skotlandi, og Jim Skea, prófessor við Imperial College London og formaður nefndar skoskra stjórnvalda um réttlát umskipti.

Í erindi sínu fjallaði Guy Ryder um hugtakið réttlát umskipti í alþjóðlegu samhengi og vinnu ILO á þessu sviði. Þeir Richard Lochhead og Jim Skea fóru yfir reynslu Skota af verkefnum tengdum réttlátum umskiptum og þá miklu áherslu sem stjórnvöld leggja á málefnið.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra:

Það er mikilvægt að allar aðgerðir okkar gegn loftslagsvánni tryggi um leið jöfnuð og réttlæti. Til þess að svo megi verða þurfa allir að vinna saman, í ólíkum geirum og ólíkum landshlutum. Við erum með skýra sýn og aðgerðaáætlun um hvernig við ætlum að draga úr losun en við þurfum einnig að setja niður félagslegar og efnahagslegar aðgerðir til að ná markmiðum okkar um réttlát umskipti."

Í þjóðhagsráði sitja formenn ríkisstjórnarflokkanna ásamt forystufólki ASÍ, BHM, BSRB, Kennarasambands Íslands, SA, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Seðlabanka Íslands.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta