Hoppa yfir valmynd
3. september 2021 Innviðaráðuneytið

Samgöngustofa hlýtur viðurkenningu Landsbjargar fyrir frumkvæði í slysavörnum

Starfsfólk Samgöngustofu við afhendingu Áttavitans. F.v.: Gunnar Geir Gunnarsson, Kristín Helga Markúsdóttir, Jón Gunnar Jónsson, Sigurður Ingi Jóhannsson og Hildur Guðjónsdóttir. - mynd

Samgöngustofa hlaut í dag Áttavitann, viðurkenningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg fyrir frumkvæði og virkni í slysavörnum. Viðurkenningin var afhent á landsþingi félagsins. Undanfarin ár hafa Samgöngustofa og Landsbjörg átt í miklu og góðu samstarfi í þágu öryggis í samgöngum, sem byggst hefur á sameiginlegri sýn á mikilvægi fræðslu og forvarna.

Samstarf Samgöngustofu og Slysavarnafélagsins Landsbjargar er fjölbreytt. Það snýst um m.a. fjölmörg umferðaröryggismál, fræðslu til ólíkra aldurshópa, öryggi ferðamanna og framleiðslu og birtingu myndefnis. Einnig snýr það að könnun á hegðun fólks í umferð, t.d. beltanotkun, hjálmanotkun og öryggi barna í bíl – bæði hvað varðar framkvæmd og eftirfylgni með niðurstöðum. Samstarfið felst einnig í framleiðslu og dreifingu á endurskinsmerkjum og endurskinsvestum til barna og þátttöku í stökum verkefnum, t.d. Vertu snjall undir stýri, 112 deginum og árlegum minningardegi um fórnarlömb umferðarslysa.

Þá hefur einnig verið mikilvægt samstarf um öryggismál sjófarenda í gegnum Slysavarnaskóla sjómanna. Þá eru ótalin ýmis verkefni, allt frá smærri verkefnum í einingum félagins víða um land upp í stór alheimsverkefni.

Í ávarpi af þessu tilefni þakkaði Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Samgöngustofu, Slysavarnafélaginu Landsbjörg kærlega fyrir viðurkenninguna og ánægjulegt og árangursríkt samstarf. Viðurkenningin væri mikil hvatning til að halda áfram á sömu braut, að auka öryggi í samgöngum á Íslandi. Hann þakkaði einnig samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og starfsfólk ráðuneytisins, fyrir mjög skýra sýn um samgönguöryggi.

„Ég óska starfsfólki Samgöngustofu innilega til hamingju með viðurkenninguna og ómetanlega vinnu við að efla öryggi í samgöngum með forvörnum og fræðslu, m.a. í nánu og góðu samstarfi við Slysavarnafélagið Landsbjörg. Í störfum mínum sem ráðherra hef ég lagt ríka áherslu á að efla öryggi á öllum sviðum samgangna – í umferðinni, á sjó og í flugi. Þetta endurspeglast í skýrum markmiðum og áherslum í samgönguáætlun sem við fylgjum af krafti,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

  • Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Samgöngustofu, tekur við Áttavitanum úr hendi Þórs Þorsteinssonar, formanns Slysavarnarfélagsins Landsbjargar. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta