Fundur utanríkisráðherra Norðurlanda um Afganistan og skýrslu Björns Bjarnasonar
Framkvæmd tillagna Björns Bjarnasonar um eflingu norræns utanríkismálasamstarfs, ástandið í Afganistan og samstarf á vettvangi alþjóðastofnana voru efst á baugi fjarfundar utanríkisráðherra Norðurlanda í dag. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra tók þátt í fundinum fyrir Íslands hönd.
Guðlaugur Þór lagði í máli sínu áherslu á eftirfylgni við skýrslu Björns Bjarnasonar, fyrrverandi alþingismanns og ráðherra, um þróun samstarfs Norðurlandanna á sviði utanríkis- og öryggismála. „Við höfum nú í sameiningu skilgreint og forgangsraðað málum sem við erum sammála um að vinna að með virkum hætti. Nú þurfum við að bretta upp ermar og stíga næstu skref í framkvæmd þessara tillagna,“ sagði Guðlaugur Þór
Ráðherrarnir ræddu einnig stöðuna í málefnum Afganistans og sammæltust um áframhaldandi samvinnu í þeim efnum. „Við vorum öll sammála um hve alvarleg og viðkvæm staðan í Afganistan er um þessar mundir. Rétt eins og í upphafi heimsfaraldursins var samstarf Norðurlanda á sviði borgaraþjónustu vegna ástandsins í Afganistan ómetanlegt. Samvinna okkar við þessar nánustu vinaþjóðir okkar er og verður kjarninn í okkar alþjóðasamstarfi,“ sagði Guðlaugur Þór.
Þá ræddu ráðherrarnir helstu áherslumál Norðurlandanna á komandi allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og í öryggisráðinu, þar sem Noregur á sæti um þessar mundir. Málefni Öryggis og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE), þar sem Svíar eru nú í formennsku, voru einnig á dagskrá en helstu átök og ágreiningsmál í álfunni koma til kasta stofnunarinnar, þ.m.t. málefni Úkraínu og Belarús.
Auk Guðlaugs Þórs tóku þátt í fundinum þau Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands, Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, Ine Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs og Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar.