Aðgerðaáætlun um aukna vernd votlendis gefin út
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur birt aðgerðaáætlun um verndun votlendis. Áætlunin er unnin í samræmi við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og inniheldur 12 aðgerðir sem eru skilgreindar af og eru á ábyrgð Landgræðslunnar og Umhverfisstofnunar.
Samkvæmt aðgerðaáætlun í loftslagsmálum til ársins 2030 er gert ráð fyrir að komið verði í veg fyrir frekari framræslu votlendis hér á landi og þá sér í lagi mómýra (e. peatlands). Mómýrar hafa sérstöðu í samhengi loftslagsmála því að í jarðvegi þeirra er bundið mikið kolefni sem mikilvægt er að tapist ekki. Við framræslu þornar jarðvegur mýra og kolefnið í jarðveginum tekur að brotna niður og losna sem koldíoxíð út í andrúmsloftið. Einnig hefur votlendi mikið gildi fyrir líffræðilega fjölbreytni og gegnir hlutverki við temprun vatnsrennslis og miðlun næringarefna.
Aðgerðirnar 12, sem Landgræðslunni og Umhverfisstofnun var falið að útfæra, taka til landgræðslu og náttúruverndar. Aðgerðirnar fela í sér aukna áherslu á verndun votlendis, endurheimt votlendis, öflun og miðlun upplýsinga um stöðu verndunar og endurheimtar, endurskoðun laga og reglugerða og aukið samstarf við landeigendur.
„Vernd votlendis sem ekki hefur verið raskað þarf að vera forgangsatriði og þar koma friðlýsingar sterklega til greina sem stjórntæki,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra. „Með stóraukinni endurheimt drögum við svo úr losun gróðurhúsalofttegunda og fáum aftur votlendisfugla og fjölbreytt lífríki sem tilheyrir votlendissvæðum. Þess vegna er mjög ánægjulegt að þessi aðgerð í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum sé nú komin til framkvæmda.“