25 milljóna viðbótarframlag til mannúðaraðstoðar í Afganistan
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnu ráðherra tilkynnti um 25 milljóna króna framlag til mannúðaraðstoðar í Afganistan á áheitaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem fram fór í Genf í dag. Framlagið rennur til samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA) og bætist það við fjárframlög íslenskra stjórnvalda til Afganistans að undanförnu.
Guðlaugur Þór ávarpaði ráðstefnuna í gegnum fjarfundarbúnað þar sem hann tilkynnti um stuðning Íslands. Fjárhæðin kemur til viðbótar við 30 milljóna króna framlags til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) og 30 milljóna króna framlags til Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC) sem tilkynnt var um í ágúst.
„Með þessu viljum við svara ákalli Sameinuðu þjóðanna um tafarlausan stuðning við afgönsku þjóðina, ekki síst til að tryggja virðingu fyrir alþjóðlegum mannréttindum og mannúðarlögum, óhindraðan aðgang mannúðarstofnana, og vernd afganskra borgara. Síðast enn ekki síst verðum við standa vörð um réttindi kvenna og stúlkna í Afganistan og að tryggja að það sem hefur áunnist í þeirri baráttu glatist ekki. Veturinn er handan við hornið, og hann er afar harður í Afganistan. Það er því mikilvægt að bregðast hratt við,“ segir Guðlaugur Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðhera.
Í kjölfar valdatöku talibana í Afganistan hefur hagur almennings í landinu versnað til muna. Miklir þurrkar hafa bætt gráu ofan á svart og heimfaraldur kórónuveiru svo aukið álagið á veikburða heilbrigðisþjónustu. Sameinuðu þjóðirnar áætla að um helmingur afgönsku þjóðarinnar, eða um 18 milljónir, þurfi á mannúðaraðstoð að halda og yfir hálf milljón hafi hrakist á flótta.