Hoppa yfir valmynd
16. september 2021 Dómsmálaráðuneytið

Bygging flugskýlis fyrir Landhelgisgæsluna hefst í vetur

Gerog Lárusson, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir - myndLHG

Bygging nýs flugskýlis fyrir Landhelgisgæslu Íslands hefst í vetur. Með nýju flugskýli verður bylting í aðbúnaði flugdeildar Landhelgisgæslunnar. Hið nýja flugskýli verður 2822 fermetrar að stærð og er gert ráð fyrir að það verði tilbúið um mitt ár 2022.

Útboð vegna jarðvinnu hefur verið auglýst en það markar upphafið að framkvæmdinni. Reiknað er með að framkvæmdir hefjist strax við töku tilboðs sem gæti orðið um næstu mánaðamót. Framkvæmdatími þessa verkliðs er áætlaður um 8 vikur og á þá öllum uppgreftri að vera lokið og jarðvegspúði tilbúin fyrir bygginguna.

Leiga á stærri og öflugri björgunarþyrlum hefur leitt til þess að loftför Landhelgisgæslunnar rúmast ekki lengur í skýlinu og því óhjákvæmilegt að ráðast í umbætur á húsnæðinu. Nýja flugskýlið mun tengjast flugskýlinu sem fyrir er og kemur einnig til með að hýsa skrifstofur flugdeildar, mötuneyti starfsmanna, búningsklefa og hvíldarrými starfsfólks. Öryggisfjarskipti ehf. munu annast byggingu flugskýlisins. Samkomulag hefur verið undirritað milli Landhelgisgæslu Íslands og Öryggisfjarskipta um leigu Landhelgisgæslunnar á flugskýlinu.

Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands, segir byggingu flugskýlisins vera mikið framfaraskref enda sé núverandi aðstaða flugdeildar stofnunarinnar barn síns tíma. Loftför Landhelgisgæslunnar rúmist ekki lengur í núverandi flugskýli og því sé mikilvægt að starfseminni sé tryggð viðunandi aðstaða.

,,Núverandi flugskýli Landhelgisgæslunnar á Reykjavíkurflugvelli var byggt af breska flughernum árið 1943 og þjónaði sínu hlutverki vel framan af. En með öflugri björgunartækjum og auknum öryggiskröfum hafa þarfirnar breyst. Með þeirri ákvörðun sem nú hefur verið tekin er flugdeild Landhelgisgæslunnar tryggð viðunandi aðstaða sem uppfyllir kröfur nútímans. Eftir að þriðja leiguþyrlan af gerðinni Airbus Super Puma H225 var tekin í notkun í maí hefur flugfloti Landhelgisgæslunnar aldrei verið öflugri. Þessi öflugi flugfloti og starfsfólki flugdeildar Landhelgisgæslunnar fá nú viðunandi aðstöðu sem uppfyllir þarfir samtímans. Við hjá Landhelgisgæslunni erum afar þakklát stjórnvöldum og Öryggisfjarskiptum ehf. fyrir að láta byggingu flugskýlisins verða að veruleika. Síðast en ekki síst erum við þakklát borgaryfirvöldum í Reykjavík sem hafa sýnt þeirri mikilvægu starfsemi sem fram fer hjá Landhelgisgæslu Íslands mikinn skilning með því heimila byggingu þess. Bygging nýs flugskýlis markar tímamót í sögu flugrekstrar hjá Landhelgisgæslu Íslands.“

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra: „Aldrei má gleyma því mikilvæga hlutverki sem flugfloti Landhelgisgæslunnar - og þá ekki síst þyrluflotinn - gegnir í öryggismálum þjóðarinnar. Við erum reglulega minnt á þetta mikilvæga hlutverk við björgun fólks við krefjandi aðstæður á sjó og landi. Einnig má nefna aðkallandi sjúkraflutninga, björgun eða aðstoð við báta og skip í lögsögu landsins. Það er því mikið gleðiefni að geta greint frá byggingu nýs flugskýlis, endurnýjun þess gamla, svo og endurbætur og stækkun bygginga sem tengjast viðhaldi og rekstri flugflotans. Landhelgisgæslan á skilið þann góða aðbúnað.“


Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Öryggisfjarskipta ehf. segir byggingu flugskýlisins vera lið í áframhaldandi uppbyggingu öryggisinnviða hér á landi' ,,Öryggisfjarskipti ehf. hafa undanfarin ár unnið að uppbyggingu öryggisinnviða hér á landi. Bygging nýs flugskýlis fyrir starfsemi Landhelgisgæslu Íslands er liður í þeirri uppbyggingu“.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta