Ólafía Jakobsdóttir hlýtur náttúrverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti
Umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson veitti í dag, á degi íslenskrar náttúru, Ólafíu Jakobsdóttur Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti. Er þetta í tólfta sinn sem náttúruverndarviðurkenningin er afhent.
Ólafía hefur starfað á Kirkjubæjarstofu í tæp 20 ár, lengst af sem forstöðumaður á þekkingarsetri á Kirkjubæjarklaustri, sem sinnir rannsóknum og fræðistörfum á sviði náttúrufars, sögu og menningar. Í tíð Ólafíu á Kirkjubæjarstofu hefur t.a.m. verið lögð mikil áhersla á skráningu örnefna, fornra leiða og sagna úr Skaftárhreppi.
Í máli ráðherra við athöfnina í dag kom fram að í tíð sinni sem sveitarstjóri hafi Ólafía m.a. beitt sér fyrir því að koma á skipulagi og umhirðu í Friðlandinu í Lakagígum, einu viðkvæmasta svæði íslenskrar náttúru, og uppbyggingu annarra innviða til verndar náttúrunni í Skaftárhreppi.
Ólafía átti drjúgan þátt í endurreisn Náttúruverndarsamtaka Suðurlands árið 2005 og var ein aðal driffjöðurin í stofnun Eldvatna — samtaka um náttúruvernd í Skaftárhreppi árið 2010. Hún hefur látið víða að sér kveða á vettvangi frjálsra félagasamtaka sem starfa að náttúru- og umhverfisvernd. Þá sat sem hún sem fulltrúi umhverfisverndarsamtaka í svæðisráði vestursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs frá stofnun hans til ársins 2019.
Ráðherra sagði Ólafíu vera boðbera nýrra tíma. „Hetja heima í héraði sem gefst aldrei upp og heldur á lofti rétti náttúrunnar. Ólafía sem hefur látið sig vernd íslenskrar náttúru varða, sérstaklega í Skaftárhreppi, hefur sýnt einstaka elju og þrautseigju. Hún er mjög vel að þessum verðlaunum komin.“