Utanríkisráðuneytið styður jarðvarmaverkefni á Norður-Indlandi
Samstarfssjóður utanríkisráðuneytisins við atvinnulíf um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, sem hvetur til framlags atvinnulífsins til þróunarsamvinnu, hefur veitt 30 milljón króna styrk til verkefnis á vegum GEG Power ehf. Verkefnið snýr að notkun lághita jarðvarma til að koma á fót kæligeymslum fyrir epli í Kinnour í Himachal Pradesh-fylki á Norður-Indlandi.
GEG ehf. er þróunarfélag á sviði jarðhita með höfuðstöðvar á Íslandi og byggir á yfir áratugs reynslu af þróun og uppbyggingu smærri jarðhitavirkjana. Síðan 2011 hefur fyrirtækið byggt 16 jarðhitavirkjanir með raforkuframleiðslugetu samtals upp á 85,6MW í Kenya og á Íslandi.
Verkefnið tengist fjórum af sautján heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna: Markmiði 7 um sjálfbæra orku; markmiði 8 um góða atvinnu og hagvöxt; markmiði 10 um aukinn jöfnuð og markmiði 13 um aðgerðir í loftlagsmálum.