Hoppa yfir valmynd
17. september 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Mikilvægi líffræðilegrar fjölbreytni undirstrikað á málþingi

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. - mynd

„Ísland vinnur nú að nýrri stefnu og aðgerðaáætlun um vernd líffræðilegrar fjölbreytni,“ sagði Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, í setningarávarpi sínu í morgun á málþingi um líffræðilega fjölbreytni - Fjölbreytni lífs í nútíð og framtíð.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneytið stóðu í sameiningu að málþinginu í samstarfi við Stofnun Sæmundar fróða.

Í ávarpi sínu sagði Guðmundur Ingi lykilupplýsingar um stöðu og þróun lífríkis á Íslandi eiga að vera aðgengilegar öllum á hverjum tíma. Fyrri hluta árs 2020 skipaði ráðherra stýrihóp með fulltrúum fjögurra ráðuneyta auk tveggja fulltrúa umhverfis- og auðlindaráðherra sem undirbýr nýja stefnumótun og framkvæmdaáætlun til næstu ára fyrir líffræðilega fjölbreytni hér á landi.

„Við þurfum að sinna með markvissum hætti því hlutverki sem Ísland hefur við vernd líffræðilegrar fjölbreytni. Það á ekki síst við um hafið og ábyrgð á sameiginlegum stofnum. En hér á landi er líka sérstakt lífríki sem þarf að passa sérstaklega upp á,“ sagði Guðmundur Ingi.  Áhersla hafi verið lögð á endurheimt vistkerfa, s.s. votlendis, mólendis og birkiskóga. „Í þeim verkefnum fara saman aðgerðir til að stemma stigu við loftslagsbreytingum og til að vernda og styrkja líffræðilega fjölbreytni. Í þessu sambandi hafa íslensk stjórnvöld staðfest markmið um endurheimt birkiskóga innan Bonn-áskorunarinnar, sem er alþjóðlegt átak og fara þessar áherslur vel saman við upphaf áratugs endurheimtar vistkerfa 2021-2030.“

Tækifæri til líffræðilegrar- og samfélagslegrar endurheimtar

Snorri Sigurðsson, sviðsstjóri náttúruverndar hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, gerði nauðsynlegar aðgerðir til að styrkja stöðu líffræðilegrar fjölbreytni að umtalsefni í erindi sínu Líffræðileg fjölbreytni – yfirfærsla og miðlun þekkingar. Hann sagði að vinna verði gegn helstu ógnum og draga úr neikvæðum áhrifum þeirra, endurheimta röskuð vistkerfi og lífverustofna sem standa höllum fæti og að vernda mikilvægustu vistgerðir og búsvæði tegunda.

Kristín Svavarsdóttir, hjá Landgræðslunni, vakti í erindi sínu Líffræðileg fjölbreytni – mikilvægi verndar og endurheimtar vistkerfa athygli á að 95% íslenskra birkiskóga hafi tapast og með þeim hafi tapast líffræðilega fjölbreytni á öllum stigum. Þannig þeki birkiskógar í dag ekki nema 1,5% landsins. Stóru verkefni hafi hins vegar verið hleypt af stokkunum í ár sem eigi að skapa tækifæri til aukinnar endurheimtar, bæði líffræðilegar og samfélagslegar.

Í erindi sínu Kíkt undir yfirborðið – líffræðileg fjölbreytni í hafi vakti Steinunn Hilma Ólafsdóttir hjá Hafrannsóknastofnunin athygli á því að stærsti hluti hafsbotnsins innan efnahagslögsögu Íslands er nánast óþekktur og enn hærra hlutfall tegunda í hafinu. Þar séu því tækifæri til að bæta grunnþekkingu verulega.

Getum ekki verið án náttúrunnar

Sæunn Júlía Sigurjónsdóttir, náttúruverndarfulltrúi Ungra umhverfissinna, sagði baráttuna fyrir verndun líffræðilegrar fjölbreytni vera samofna öðrum baráttumálum sem ungt fólk brennur fyrir og að það hafi áttað sig á mikilvægi líffræðilegrar fjölbreytni. „ Ungt fólk vill eiga möguleika á framtíð með heilbrigðum vistkerfum og sanngjörnu samfélagi. Það veit að samband okkar við náttúruna þarf að breytast til að þetta verði möguleiki. Við þurfum að átta okkur á því að við getum ekki án náttúrunnar verið. Við erum hluti af líffræðilegum fjölbreytileika.“

  • Mikilvægi líffræðilegrar fjölbreytni undirstrikað á málþingi - mynd úr myndasafni númer 1
  • Steinunn Hilma Ólafsdóttir. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta