Ný skýrsla um samskipti Íslands og Póllands
Efla ætti enn frekar samskipti Íslands og Póllands og auka þarf viðveru íslenskra stjórnvalda í Póllandi að mati starfshóps sem Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra skipaði í september 2019. Skýrsla starfshópsins Vinátta og vaxtarbroddar: Samskipti Íslands og Póllands hefur nú verið gefin út.
Starfshópnum var falið að greina tvíhliða samskipti ríkjanna á heildstæðan hátt og leggja til aðgerðir sem hægt væri að framkvæma á næstu árum. Hann leggur til að ráðherra taki til athugunar ellefu tillögur sem annars vegar lúta að því að festa enn frekar í sessi farsæl samskipti þjóðanna og hins vegar að almennum aðgerðum sem hafa það að markmiði að efla þau enn frekar.
„Pólverjar eru langfjölmennasti hópur útlendinga með búsetu á Ísland og hafa auðgað íslenskt samfélag svo um munar. Þeir hafa stækkað kökuna og átt ríkan þátt í að skapa þá hagsæld sem hér ríkir,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson. Pólitísk, efnahagsleg og menningarleg samskipti Íslands og Póllands hafa aukist verulega á undanförnum árum. Þessi vaxandi samskipti ásamt greiðari samgöngum hafa leitt til aukinna viðskipta- og menningartengsla og í því felast sóknarfæri að mati ráðherra.
„Til viðbótar við þau tækifæri sem felast í aukinni efnahagslegri velsæld í Póllandi og vaxandi þjóðarframleiðslu sem hefur um árabil verið með því mesta sem gerist í Evrópu felast í þessari þróun sóknarfæri fyrir íslensk útflutningsfyrirtæki. Pólskur efnahagur hefur staðist höggið vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar betur en flest önnur lönd Evrópusambandsins og til marks um þessa styrku stöðu horfa Danir til að mynda leggja mikla áherslu á aukinn útflutning þangað þegar faraldrinum linnir,“ segir Guðlaugur Þór.
Starfshópnum var falið að koma með tillögur að aðgerðum og verkefnum sem ráðast má í á næstu árum með það fyrir augum að styðja enn frekar við samskipti Íslands og Póllands. Starfshópurinn leggur eftirfarandi til:
- Starf viðskiptafulltrúa sendiráðs Íslands í Berlín verði eflt með tilliti til Póllands.
- Stutt verði við aukin milliríkjaviðskipti og starfsemi Pólsk-íslenska viðskiptaráðsins.
- Stutt verði við aukið samstarf í sjávarútvegi
- Blásið verði til sóknar í verkefnum á vegum uppbyggingasjóðs EES.
- Stuðlað verði að útflutningi á íslensku hugviti og verkþekkingu á sviði orkumála og jarðvarma í Póllandi.
- Samstarf á sviði öryggis- og varnarmála verði eflt.
- Samstarf á sviði mennta- og menningarmála verði eflt.
- Þess verði gætt að þátttaka Íslands í viðskipta- og menningarverkefnum í Póllandi verði áfram byggð á grunnstoðum íslenskrar utanríkisstefnu.
- Stuðlað verði að auknu samráði á svið heilbrigðismála.
- Opnuð verði sendiskrifstofa í Varsjá eða einn af starfsmönnum sendiráðs Íslands í Berlín hafi reglubundna viðveru í Póllandi.
Starfshóp utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra skipuðu Grazyna María Okuniewska, formaður, Gréta Ingþórsdóttir og Janus Arn Guðmundsson. William Freyr Huntingdon-Williams, sérfræðingur á viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins var starfsmaður hópsins.
Skýrsluna má lesa í heild sinni á vef Stjórnarráðsins
Fréttatilkynningin í pólskri þýðingu.