Hoppa yfir valmynd
17. september 2021 Forsætisráðuneytið

Viljayfirlýsing um undirbúning viðburða í tilefni 50 ára afmælis gosloka

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja. - mynd

Í dag undirrituðu þær Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja, viljayfirlýsingu um samvinnu og undirbúning viðburða í tilefni þess að árið 2023 verða 50 ár liðin frá eldgosinu á Heimaey og 60 ár liðin frá eldgosinu í Surtsey.

Til stendur að skipuleggja samnorrænan ráðherrafund forsætisráðherra í Vestmannaeyjum sumarið 2023 í kringum Goslokahátíð Vestmannaeyja.  Jafnframt stendur til að reisa minnisvarða á Heimaey með skírskotun til eldgosanna. Þá stendur til að skipuleggja málstofu um eldgosin í samvinnu við Jarðfræðafélag Íslands, fræðasamfélagið, HÍ, Veðurstofu, almannavarnir, embætti ríkislögreglustjóra, áhugafólk og fræðimenn.

Meginmarkmiðið með þessu er að vekja athygli Íslendinga á eldgosunum og þýðingu þeirra fyrir náttúruna og samfélagið. Jafnframt er það markmið að kynna eldgosin fyrir ráðamönnum Norðurlandanna og færa þeim þakkir fyrir veitta  aðstoð í kjölfar eldgossins á Heimaey.

Ómetanleg aðstoð barst frá Norðurlöndunum við endurreisn samfélagsins að loknu eldgosinu á Heimaey. Myndarlegum fjárveitingum úr ríkissjóðum Norðurlandanna var varið til uppbyggingar í Vestmannaeyjum sem og á meginlandinu til þess að tryggja flóttafólki heimili og þjónustu. Jafnframt stóðu Norðurlöndin fyrir almennum söfnunum og fyrir það fé var m.a. hægt að byggja hjúkrunarheimilið Hraunbúðir og leikskólann Kirkjugerði í Vestmannaeyjum. Jafnframt færðu Norðurlöndin Íslendingum fjölmörg hús fyrir flóttafólkið úr Vestmannaeyjum.

Gert er ráð fyrir að skipuð verði verkefnisstjórn með fulltrúum stjórnvalda og Vestmannaeyjabæjar, sem mun annast undirbúning og skipulagningu viðburðanna.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta