Einföldun á regluverki í þágu smávirkjana
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur kynnt í Samráðsgátt stjórnvalda drög að reglugerð sem ætlað er að bæta rekstrarumhverfi smávirkjana. Reglugerðin er hluti af tillögum starfshóps sem ráðherra skipaði árið 2020 með það að markmiði að bæta starfsumhverfi smávirkjana, með sérstakri áherslu á gjaldtöku vegna tenginga þeirra við dreifikerfi raforku.
Í reglugerðardrögunum er með ítarlegum og skýrum hætti fjallað um kerfisframlag vegna slíkra tenginga, undir formerkjum einföldunar, jafnræðis og aukinnar skilvirkni. Er þar m.a. lagt til að við útreikning á kerfisframlagi smávirkjana (þ.e. gjaldtaka við að tengjast dreifiveitu) verði miðað við 30 ára afskriftartíma í stað 20 ára eins og nú er, sem að öllu jöfnu mun leiða til lægra kerfisframlags og meiri sveigjanleika í rekstri og fjárfestingum.
Starfshópurinn skilaði skýrslu til ráðherra fyrr á árinu og hafa tillögur hans verið settar í farveg. Auk reglugerðarbreytingarinnar má þar vísa í stofnun vettvangs dreifiveitna fyrir gerð netmála (tæknilegs skilmála) fyrir smávirkjanir, vinnu á vegum Landsnets um breytingar á gjaldaumhverfi varðandi innmötunargjald virkjana og einföldun í framkvæmd eftirlits með smávirkjunum hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Markmið þessara breytinga er að samræma og einfalda rekstrarumhverfi smárra vinnsluaðila á mismunandi dreifiveitusvæðum, greiða fyrir samskiptum notenda og dreifiveitna við tengingar og stuðla að frekari þróun í vinnslu og viðskiptum með raforku í þágu orkuskipta.
Nánari umfjöllun er að finna í skýrslu starfshópsins og í kynningu á reglugerðinni á samráðsgátt stjórnvalda