Hoppa yfir valmynd
21. september 2021 Innviðaráðuneytið

Samið um meðalhraðaeftirlit til að auka umferðaröryggi

Frá undirritun samstarfssamningsins í dag. Frá vinstri: Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri, Kristín Helga Markúsdóttir framkvæmdastjóri stjórnsýslu og þróunar hjá Samgöngustofu, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, og Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, staðfesti í dag nýjan samstarfssamning Vegagerðar, Samgöngustofu og Ríkislögreglustjóra um sjálfvirkt hraðaeftirlit með löggæslumyndavélum. Markmið samningsins er að fækka banaslysum og alvarlega slösuðum í umferðinni með markvissu hraðaeftirliti á völdum stöðum á þjóðvegum landsins.

Helstu nýmæli eru að framvegis verður hægt að nýta myndavélar til að sinna meðalhraðaeftirliti á þjóðvegum, en unnið hefur verið að undirbúningi þess á undanförnum árum. Slíkur búnaður hefur verið settur upp og prófaður, m.a. á Grindavíkurvegi og Norðfjarðarvegi. Meðalhraðamyndavélar verða komnar í gagnið á næstu mánuðum.

„Ég hef lagt ríka áherslu á umferðaröryggi í ráðherratíð minni. Aðeins með markvissum aðgerðum og fræðslu mun okkur takast að fækka slysum í umferðinni. Sjálfvirkt hraðaeftirlit með myndavélum hefur reynst vel á þjóðvegum landsins, í það minnsta til að minna okkur sjálf á að virða hraðamörk. Við höfum trú á að með nýju meðalhraðaeftirliti verði hægt að fækka hraðakstursbrotum og auka umferðaröryggi enn frekar enda hefur slíkt meðalhraðaeftirlit gefið góða raun í nágrannalöndum okkar,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Samningurinn er gerður á grundvelli umferðaröryggisáætlunar sem er hluti af samgönguáætlun fyrir árin 2020-2034.

Lögreglustjóraembættið á Vesturlandi sér um umsýslu og úrvinnslu gagna úr myndavélum í umboði Ríkislögreglustjóra. Vegagerðin greiðir á samningstímanum ígildi tveggja stöðugilda á ári til að annast verklega framkvæmd við úrvinnslu sekta og kostnað vegna tæknimála, samtals að hámarki 15 milljónir króna á ári.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta