Hoppa yfir valmynd
21. september 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Stórt framfaraskref stigið með rafrænum sjúkraflutningaskýrslum

  - myndMynd: Heilbrigðisráðuneytið

Valmynd í rafrænni sjúkraflutningaskrá
Þróun rafrænna sjúkraflutningaskýrslna er að ljúka, prófunarferli að hefjast og stefnt að því að innleiðing þeirra hefjist í byrjun næsta árs. Þessi tækni markar tímamót. Hún eykur öryggi sjúklinga með skjótu aðgengi sjúkraflutningafólks að upplýsingum um skjólstæðinga sem gagnast við ákvarðanatöku á vettvangi og skráning nýrra upplýsinga verður samstundis aðgengileg heilbrigðisstarfsfólki sem tekur við meðferð sjúklingsins í kjölfar sjúkraflutnings. Markmiðið með rafrænum sjúkraflutningaskýrslum er að auka gæði skráninga, bæta aðgengi að upplýsingum og efla gæðavísa og gæðastjórnun í utanspítalaþjónustu.

 

Sem dæmi um eiginleika sem nýtast vel á vettvangi er sjálfvirkur úrlestur mælinga í skýrslu frá ýmsum búnaði sem sjúklingur er tengdur við eins og t.d. hjartariti og súrefnismettunar- og blóðþrýstingsmæli. Einnig verður auðveldara að fylgja eftir þjónustu sem tekur við í kjölfar flutnings, hvort heldur á heilbrigðisstofnunum eða í heilsugæslu. Með rafrænni skráningu verður auk þess loksins mögulegt að ná saman tölulegum gögnum á landsvísu um sjúkraflutninga og hagnýta gögnin til rannsókna og vinnu í tengslum við gæða vísa. 

„Bylting á sviði sjúkraflutninga“

Í dag eru sjúkraflutningaskýrslur á pappírsformi og sjúkraflutningafólk hefur ekki beinan rafrænan aðgang að upplýsingum um sjúklinga sem það flytur. Þróun rafrænna sjúkraflutningaskýrslna hefur verið á hendi embættis landlæknis og nú sér fyrir endann á þessu langþráða markmiði.

„Það er óhætt að kalla þetta byltingu á sviði sjúkraflutninga. Þetta mun auka öryggi við ákvarðanatöku um fyrstu viðbrögð á vettvangi sem er gríðarlega mikilvægt og eins skiptir miklu máli að upplýsingar um sjúklinginn skili sér hratt og örugglega til heilbrigðisstarfsfólksins sem tekur við meðferð í framhaldinu“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Eins og áður segir eru prófanir á kerfinu að hefjast, innleiðingin hefst á nýju ári á þeim stöðvum sem taka þátt í prófununum og gert er ráð fyrir að innleiðingu rafrænna sjúkraflutningaskráa á landsvísu ljúki í maí á næsta ári.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta