Hoppa yfir valmynd
22. september 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Nýr samningur við ljósmæður og aðgerðaáætlun um barneignaþjónustu

Nýr samningur við ljósmæður og aðgerðaáætlun um barneignaþjónustu - myndMynd úr einkasafni - birt með leyfi höfundar

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur staðfest nýgerðan rammasamning Sjúkratrygginga Íslands við ljósmæður vegna fæðinga og umönnunar sængurkvenna í heimahúsum. Helsta nýmæli samningsins felst í stóraukinni þjónustu við mæður sem þurfa ráðgjöf vegna brjóstagjafar. Ráðherra hefur jafnframt samþykkt aðgerðaáætlun til ársins 2030 sem miðar að því að bæta barneignaþjónustu, jafnt á meðgöngutíma, við fæðingu barns og í kjölfar fæðingar.

Árið 2020 fjölgaði konum sem nutu aðstoðar við heimafæðingu um 40% frá fyrra ári. Sjálfstætt starfandi ljósmæður hafa ekki getað annað eftirspurn eftir þjónustu við konur sem kjósa að fæða í heimahúsum og hefur heilbrigðisráðherra lagt áherslu á að efla fæðingarþjónustu sem miðar að eðlilegu fæðingarferli og vali kvenna á fæðingarstað. Með þeim samningi sem nú hefur verið undirritaður er stuðlað að því að fæðandi konur fái þjónustu á viðeigandi þjónustustigi í samræmi við heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Samfelld þjónusta eykur öryggi og ánægju kvenna og fjölskyldna þeirra og bætir útkomu þjónustunnar. Í nýjum samningi er skapað rými fyrir aukna þjónustu og eftirfylgd vegna fæðingar andvana barns. Þá er það nýmæli að vitjunum brjóstagjafaráðgjafa er fjölgað og tímabilið sem konur geta nýtt sér þjónustu þeirra er lengt úr tíu dögum í 6 mánuði eftir fæðingu. 

Aðgerðaáætlun til ársins 2030

Við þróun barneignarþjónustunnar er mikilvægt að viðhalda góðum árangri sem hér á landi er með því besta sem þekkist. Engu að síður er mikilvægt að nýta öll færi sem gefast til að bæta enn frekar heilsu og líðan fjölskyldna í barneignarferli.

Í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 er m.a. lögð áhersla á þjónustustýringu og flæði notenda milli þjónustustiga og hvernig stýra megi þjónustu til að tryggja öryggi, hagkvæmni og jafnræði. Til þess þarf að vera yfirsýn yfir þjónustuna, mismunandi þætti hennar og upplýsingaflæði milli þeirra. Teymisvinna og skipulögð samvinna milli starfsfólks heilsugæslustöðva og einnig milli ljósmæðra og fæðingarlækna, er lykilatriði enda hefur sýnt sig að fæðingarútkoma er best þar sem gott samstarf er á milli þessara stétta. Aðgerðaáætlunin miðar að því að því að auka yfirsýn, aðgengi og samfellu í þjónustunni til að tryggja öryggi, gæði og fagmennsku hennar, óháð búsetu, fjárhag og félagslegri stöðu skjólstæðinga.

Heilbrigðisráðherra samþykkti meðfylgjandi aðgerðaáætlun um barneignaþjónustu á alþjóðadegi Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar um sjúklingaöryggi sem í ár var tileinkaður öryggi fæðandi kvenna og nýburum um allan heim. Áætlunin er byggð á skýrslu starfshóps sem heilbrigðisráðherra fól að gera tillögur að bættri barneignaþjónustu með áherslu á að auka samþættingu milli meðgönguverndar, fæðingarhjálpar og þjónustu við konur í sængurlegu. Yfirsýnin yfir þjónustuna og samvinnan milli stofnana er gríðarlega mikilvæg og einnig bakstuðningur fyrir fagfólk sem eykur fagmennsku og aðgengi að nauðsynlegri þjónustu og eykur þar með öryggi kvenna og barna. Skýrsla með tillögum starfshópsins var birt til  umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda í byrjun þessa árs og bárust sjö umsagnir sem einnig voru hafðar til hliðsjónar við gerð meðfylgjandi áætlunar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta