Hoppa yfir valmynd
22. september 2021 Forsætisráðuneytið

Ríkið og Landsvirkjun semja um endurgjald vegna nýtingar á réttindum á Þjórsársvæði

Fréttatilkynning frá forsætisráðuneytinu og Landsvirkjun

Forsætisráðuneytið og Landsvirkjun hafa náð samningum um endurgjald vegna nýtingar Landsvirkjunar á vatns- og landsréttindum á Þjórsársvæði innan þjóðlendna.

Kveikjan að samningunum er ákvörðun Eftirlitsstofnunar EFTA frá 20. apríl 2016 þar sem endurgjaldslaus afnot af landi og auðlindum í eigu hins opinbera eru talin fela í sér ríkisaðstoð sem stangist á við EES-samninginn. Þáverandi ríkisstjórn féllst á ákvörðunina og síðan hefur verið unnið að samningsgerð.

Samkvæmt samningunum greiðir Landsvirkjun íslenska ríkinu árlegt gjald í 65 ár (frá 1. janúar 2017 að telja). Jafnframt er gert ráð fyrir endurskoðun gjaldsins að þeim tíma liðnum. Þá greiðir Landsvirkjun einnig fyrir nýtingu réttinda frá gildistöku þjóðlendulaga og fram til ársloka 2016. Síðar á þessu ári greiðir Landsvirkjun tæpan 1,5 milljarð króna vegna fortíðarinnar en síðan munu árlegar greiðslur nema um 90 milljónum króna auk verðbóta.

Ekki er gert ráð fyrir að þessar samningsgreiðslur hafi áhrif á arðgreiðslur Landsvirkjunar í framtíðinni. Á síðustu fjórum árum hefur Landsvirkjun greitt íslenska ríkinu 22 milljarða króna í arð.

Ákvörðun á endurgjaldi vegna vatnsréttinda byggir á nærtækum viðmiðum um verðmæti réttinda sem þessara og forsögu þeirra virkjana sem um ræðir. Er þar ekki síst litið til dóms Hæstaréttar í máli nr. 233/2011 þar sem tekist var á um verðmæti réttinda er tengdust Kárahnjúkavirkjun. Tekið er tillit til hagkvæmni virkjunar þannig að gjaldið hækkar eftir því sem stofnkostnaður/orkugeta er lægri. Endurgjald vegna nýtingar landsréttinda tekur mið af niðurstöðum úrskurða matsnefndar eignarnámsbóta og samningum um sambærileg réttindi.

Gert er ráð fyrir að öðrum orkufyrirtækjum, sem eru í sambærilegri stöðu og Landsvirkjun, þ.e. þar sem ósamið er við ríkið vegna eldri virkjana, verði boðnir hliðstæðir samningar

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:

„Ég er ánægð með að það sé loksins komin niðurstaða í þetta mál. Landsvirkjun er mikilvæg almannaeign og með þessu er staða hennar styrkt og botn fenginn í þetta álitamál. Jafnframt er undirstrikuð meginreglan um að eðlilegt gjald skuli greitt fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum.“

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar:

Þessi samningur er mikið fagnaðarefni. Þótt Landsvirkjun hafi lögvarinn rétt samkvæmt sérlögum til nýtingar auðlinda á þessu svæði þá hefur ekki áður legið fyrir samkomulag um endurgjald fyrir þá nýtingu. Samningurinn staðfestir nýtingarrétt orkufyrirtækis þjóðarinnar og sá fyrirsjáanleiki er mikilvægur. Vinnsla okkar á orku úr endurnýjanlegum auðlindum þjóðarinnar er mikilvægt framlag til loftslagsmála, auk þess að skapa hagnað. Arðgreiðslur Landvirkjunar í ríkissjóð halda áfram að aukast og við stefnum að því að þær verði 10-20 milljarðar á ári næstu árin.”

 

Samningur um endurgjald fyrir nýtingu lands- og vatnsréttinda vegna Vatnsfells- og Búðarhálsvirkjunar á Þjórsársvæði innan þjóðlendna

Samningur um endurgjald fyrir nýtingu lands- og vatnsréttinda vegna Sultartangavirkjunar, Hrauneyjarfossvirkjunar, Sigölduvirkjunar og stækkunar Búrfellsvirkjunar á Þjórsársvæði innan þjóðlendna

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta