Hoppa yfir valmynd
24. september 2021

Fundur Velferðarvaktarinnar 17. ágúst 2021

50. fundur Velferðarvaktarinnar (fjarfundur)

17. ágúst 2021 kl. 13.15-15.00.

Mætt: Siv Friðleifsdóttir, formaður, Anna María Gunnarsdóttir frá Kennarasambandi Íslands, Ása Sjöfn Lórensdóttir frá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Ásta Helgadóttir frá umboðsmanni skuldara, Bergþór H. Þórðarson frá Pepp á Íslandi, Bryndís Snæbjörnsdóttir frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Dagbjört Höskuldsdóttir frá Landssambandi eldri borgara, Eðvald Stefánsson frá umboðsmanni barna, Elfa Dögg S. Leifsdóttir frá Rauða krossinum, Eysteinn Eyjólfsson frá VIRK, Gústaf A. Gústafsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, Helga Ágústsdóttir frá heilbrigðisráðuneyti, Ingvi Skjaldarson frá Hjálpræðishernum, Jón Ingi Cæsarsson frá BSRB, Lára G. Magnúsdóttir frá Sjónarhóli, Margrét Júlía Rafnsdóttir frá Barnaheillum, Margrét Steinarsdóttir frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, Ólafur G. Halldórsson frá Samtökum atvinnulífsins, Rögnvaldur Gunnarsson frá heilbrigðisráðuneyti, Salbjörg Bjarnadóttir frá Embætti landlæknis, Sigrún Jónsdóttir frá Tryggingastofnun ríkisins, Sigurveig Gunnarsdóttir frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Sigurveig Sigurðardóttir frá félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands, Sigþrúður Guðmundsdóttir frá Samtökum um kvennaathvarf, Steinunn Bergmann frá Bandalagi háskólamanna, Sunna Diðriksdóttir frá dómsmálaráðuneyti, Valgerður Bjarnadóttir frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Viðar Helgason frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Vilborg Oddsdóttir frá Hjálparstarfi kirkjunnar og Lovísa Lilliendahl frá félagsmálaráðuneyti.

___

1. Fjórða bylgja Covid-19 – samtal við félags- og barnamálaráðherra
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, fór yfir stöðu mála með tilliti til fjórðu bylgju Covid-19 faraldursins og ræddi við fulltrúa vaktarinnar. Einkum voru rædd málefni barna þ.m.t. skólastarfið framundan og innleiðingu frumvarps um farsæld barna sem nú er að farin af stað og kallar á öflugt samstarf á milli allra þeirra aðila sem koma að þjónustu við börn. Þá eru í undirbúningi verkefni sem lúta að geðheilsu barna og ungmenna. Einnig var rætt um málefni aldraðra og lagði ráðherra áherslu á að þegar kemur að þjónustu við aldraða þurfi að beita svipaðri nálgun og gert hefur verið í málefnum barna.

Í ljósi þess að um var að ræða síðasta fund fyrir kosningar, sem fram fara þann 25. september, var ráðherra þakkað fyrir góð störf og fyrir þann áhuga sem hann hafi sýnt störfum Velferðarvaktarinnar á kjörtímabilinu. Ráðherra þakkaði fulltrúum sömuleiðis fyrir þá góðu vinnu sem vaktin hefur lagt til á þessum óvenjulegu tímum, hún hefði skilað sér inn í aðgerðapakka stjórnvalda sem bregðast eiga við afleiðingum faraldursins.

2. Upphaf grunnskólastarfs haustið 2021
Þorsteinn Sæberg, formaður Skólastjórafélags Íslands, ræddi um skólastarfið sem er að hefjast á næstu dögum með tilliti til fjórðu bylgju Covid-19 faraldursins. Þorsteinn ræddi um að í upphafi skólaárs mætti gera mætti ráð fyrir að nemendur þyrftu að fara í sóttkví í ljósi þess hve veiran er útbreidd og enn mikið um smit. Ekki hafa verið gefnar út sérreglur en skólar hafa fengið tilmæli um að gæta vel að sóttvörnum. Þorsteinn ræddi um að kallað hefði verið eftir því að skoðaðar yrðu fleiri lausnir í þessum efnum. Þá lýsti hann því að skólar reyndu eftir fremsta megni að styðja við nemendur á einstaklingsgrundvelli til að mæta þeim afleiðingum sem Covid-19 faraldurinn hefði haft á þá.

3. Málþroski barna og læsi á leikskóla- og grunnskólastigi
Hlíf Brynja Baldursdóttir, verkefnisstjóri Máls og læsis í Fellaskóla, kynnti verkefni sem stuðlar að góðum málþroska barna og læsi á leikskóla- og grunnskólastigi en verkefnið hefur verið í gangi um nokkurt skeið með góðum árangri. Í kynningu Hlífar mátti m.a. sjá niðurstöður lesfimikönnunar sem sýnir að með mikilli og markvissri vinnu geta börn á skömmum tíma náð góðum árangri í málþroska og læsi, hvort sem þau eru íslensk eða af erlendum uppruna. Gert er ráð fyrir að verkefnið muni síðar koma til með að nýtast í öðrum skólum á landinu. 

Sjá glærur

4. Hagir og líðan eldri borgara
Birna Sigurðardóttir, sérfræðingur á skrifstofu barna- og fjölskyldumála í félagsmálaráðuneytinu, kynnti skýrsluna Hagir og líðan eldri borgara, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann fyrir félagsmálaráðuneytið, velferðarsvið Reykjavíkurborgar og Landssamband eldri borgara. Könnunin náði til 1800 manns af landinu öllu sem voru 67 ára eða eldri þar sem m.a. var spurt um almennt heilbrigði, viðhorf til heilbrigðisþjónustu, aðstoð sem þau nýta sér, félagslega virkni og fleira.

Hér má sjá skýrsluna

5. Ofbeldi gegn öldruðum á Íslandi
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, ríkislögreglustjóri, kynnti skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra um ofbeldi gegn öldruðum á Íslandi. Skýrslunni er ætlað að varpa ljósi á ofbeldi gegn öldruðum á Íslandi með það að markmiði að greiða fyrir stefnumörkun í málaflokknum.

Skýrslan er liður í vinnu tímabundins aðgerðateymis gegn ofbeldi sem Sigríður Björk hefur leitt ásamt Eyglóu Harðardóttur, fyrrverandi félagsmálaráðherra, og sagði Sigríður einnig stuttlega frá öðrum verkefnum á vegum aðgerðateymisins. Aðgerðateymið var skipað á síðasta ári en stjórnvöld ákváðu að grípa til markvissra aðgerða og vitundarvakningar gegn ofbeldi, einkum heimilisofbeldi og ofbeldi gegn börnum, í ljósi aukinna tilkynninga um heimilisofbeldi í upphafi Covid-19 faraldursins. Aðgerðirnar miðuðu sérstaklega að viðkvæmum hópum, þar með talið börnum, konum af erlendum uppruna, öldruðum og fötluðu fólki sem reynslan hefur sýnt að eru í meiri hættu en aðrir á að verða fyrir ofbeldi.

Hér má sjá skýrsluna.

6. Örkynning Landssamband eldri borgara
Dagbjört Höskuldsdóttir, fulltrúi Landsambands eldri borgara í Velferðarvaktinni, kynnti hlutverk og starfsemi sambandsins en það verður 30 ára á árinu. Aðildarfélög þess eru 55 talsins.

7. Önnur mál

  • Rannsókn á brotthvarfi og námstöfum á framhaldskólastigi. Töf hefur orðið á vinnu við skýrsluna en hún er væntanleg bráðlega.
  • Fyrirhugaður fundur um mataraðstoð og skýrslu sem unnin var í því sambandi hefur verið frestað um óákveðinn tíma í ljósi sóttvarna.
  • Fulltrúar voru hvattir til þess að vekja athygli á málum sem vaktin gæti tekið til umræðu.

Næsti fundur verður haldinn þriðjudaginn 28. september á Teams.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta