Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að útvíkka geðheilbrigðisþjónustu við aldrað fólk í heimahúsum og bjóða sérstaklega upp á stuðning geðheilbrigðisþjónustu heilsugæslunnar til m.a. að vinna gegn einmanaleika, kvíða og þunglyndi. Viðbótarfjárveiting að upphæð 200 milljónum króna verður sett í verkefnið og fjármagni dreift í gegnum fjármögnunarlíkan heilsugæslustöðva um land allt. Markmiðið með þessari auknu þjónustu er að bæta líðan eldra fólks en það getur m.a. stuðlað að því að fólk þurfi síður á sjúkrahúsinnlögnum og stofnanadvöl að halda.