Aðgerðaáætlun gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka til 2023 samþykkt
Stjórnvöld hafa nú gefið út endurskoðaða áætlun vegna aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka fyrir árin 2021 til 2023. Aðgerðaáætlunin var unnin af stýrihóp sem dómsmálaráðherra skipar til að vinna að aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Nýja aðgerðaráætlunin er gerð með hliðsjón af helstu ógnum og veikleikum sem nýlegt áhættumat ríkislögreglustjóra hefur leitt í ljós.
Í fyrri hluta aðgerðaáætlunarinnar er farið yfir afdrif þeirra aðgerða sem ráðlagt var að grípa til í aðgerðaáætlun 2019-2021. Í síðari hlutanum er síðan að finna þær aðgerðir sem ráðlagðar eru til að bregðast við niðurstöðum endurskoðaðs áhættumats ríkislögreglustjóra. Gert er ráð fyrir að sú aðgerðaáætlun gildi til ársins 2023 þegar hún mun sæta endurskoðun á nýjan leik samhliða lögbundinni endurskoðun á áhættumati ríkislögreglustjóra. Aðgerðaáætlunin hefur verið lögð fyrir ríkisstjórn Íslands til kynningar og tekur þegar gildi.
Samkvæmt lögum ber ríkislögreglustjóra að gera áhættumat sem inniheldur greiningu og mat á hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka á Íslandi, svo og leiðir til að draga úr slíkri hættu. Í mars 2021 birti ríkislögreglustjóri endurskoðað áhættumat sitt samkvæmt nefndu ákvæði. Í samræmi við yfirlýsta stefnu stjórnvalda í málaflokknum vann stýrihópur dómsmálaráðherra aðgerðaáætlun þar sem lagðar voru til aðgerðir til að bregðast við þeirri hættu og veikleikum sem áhættumat ríkislögreglustjóra leiddi í ljós.
Mikill árangur hefur náðst í þessum málaflokki á undanförnum árum, sem m.a. birtist í þeirri ákvörðun Financial Action Task Force (FATF) í október 2020 að fjarlægja Ísland af svonefndum gráa lista samtakanna yfir þau ríki þar sem vörnum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka telst áfátt, en Ísland var sett á listann í október árið á undan. Þá hefur Ísland jafnframt á undanförnum tveimur árum fengið hækkun á 24 af 40 tilmælum í eftirfylgniferli FATF, en í því ferli er lagt mat á hve vel hefur tekist til að laga íslenska löggjöf að tilmælum samtakanna.
Nánari upplýsingar um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka eru á vef ráðuneytisins: https://www.stjornarradid.is/verkefni/almannaoryggi/adgerdir-gegn-brotastarfsemi/adgerdir-gegn-peningathvaetti-og-fjarmognun-hrydjuverka/
Aðgerðaráætlun gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.