Vernd, Rauði krossinn og Afstaða fá styrk frá Alþingi vegna fanga
Vernd aðstoðar meðal annars fanga að lokinni afplánun við húsnæðisleit og atvinnuleit, skólagöngu, starfsendurhæfingu og meðferðir. Jafnframt aðstoðar Vernd þolendur sem hafa samband vegna komu gerenda í úrræði Verndar. Samtökin Vernd telja að styrknum verði vel varið hjá samtökunum í að efla og styrkja það mikla starf sem samtökin leggi nú þegar af mörkum.
Rauði krossinn rekur tvö verkefni sem koma beint að stuðningi við þann hóp sem um er rætt. Aðstoð eftir afplánun er verkefni ætlað fólki sem hefur nýlokið fangelsisvist, er að afplána langan dóm eða hefur einhvern tímann afplánað dóm. Verkefnið er sett upp þannig að einn sjálfboðaliði sinnir einum þátttakanda, sem er að ljúka afplánun, með þarfir og væntingar einstaklingsins í huga. Frú Ragnheiður er starfrækt á þremur stöðum á landinu. Byggir það á hugmyndafræði skaðaminnkunar og miðar fyrst og fremst að því að draga úr heilsufarslegum, félagslegum og efnahagslegum skaða þeirra sem nota lögleg og/eða ólögleg vímuefni. Bæði verkefni Rauða Krossins eru að mestu rekin með frjálsum framlögum og umsóknum í opinbera styrki án rekstrarsamnings við ríki eða sveitarfélög.
Í bréfi frá Afstöðu kemur fram að styrkur yrði nýttur í miðstöð til endurhæfingar, öflun atvinnutækifæra, fræðsluefni, undirbúning að opnun langtíma endurhæfingar- og áfangaheimilis fanga fyrir losun úr fangelsi, reglulegar ferðir í fangelsin og reglubundin viðtöl við sérfræðinga.