Hoppa yfir valmynd
7. október 2021 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Sanngirnisbætur vegna vistunar á stofnunum hins opinbera

Þeir sem urðu fyrir varanlegum skaða á stofnunum fyrir fötluð börn á vegum hins opinbera fyrir 1. febrúar 1993 og sættu illri meðferð eða ofbeldi geta átt rétt á sanngirnisbótum.
Sanngirnisbætur eru greiddar til þeirra sem urðu fyrir varanlegum líkamlegum, sálrænum eða félagslegum skaða vegna illrar meðferðar meðan á vistun þeirra stóð. Ill meðferð getur verið ofbeldi og vanræksla og falist í athöfnum eða athafnaleysi starfsmanna og eftir atvikum annarra opinberra aðila.

Rekstur vistheimila og stofnana skoðaður

Í kjölfar umfjöllunar í fjölmiðlum um aðbúnað barna á vistheimilinu Breiðavík ákvað ríkisstjórnin árið 2007 að láta rannsaka rekstur vistheimila. Vistheimilanefnd vann vandaðar skýrslur um fjölda vistheimila og í kjölfarið voru greiddar sanngirnisbætur til um 1.100 einstaklinga. Árið 2020 var lögum breytt til þess að hægt væri að ljúka bótauppgjöri vegna fatlaðs fólks sem var vistað á barnsaldri á öðrum stofnunum sem hið opinbera bar ábyrgð á.
Sýslumanninum á Norðurlandi eystra hefur verið falið að kalla eftir kröfum um sanngirnisbætur vegna stofnana sem falla undir lögin. Einstaklingar sem telja sig eiga rétt til bóta á grundvelli laganna hafa frest til og með 31. janúar 2022 til að sækja um sanngirnisbætur. Krafist er sanngirnisbóta með því að fylla út umsóknareyðublað sem er aðgengilegt á island.is/sanngirnisbaetur. Umsóknareyðublaðið þarf að senda til Sýslumannsins á Norðurlandi eystra, Gránugötu 6, 580 Siglufirði en því má jafnframt skila til tengiliðar verkefnisins.

Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra fer yfir umsóknir og metur hverjum skuli greiða sanngirnisbætur. Við matið er m.a. skoðað á hvaða stofnun umsækjandi var vistaður og hversu lengi. Telji sýslumaður umsækjanda eiga rétt á bótum, gengur hann frá sáttatilboði og sendir það til umsækjanda. Frestur umsækjanda til að svara sáttaboði er 30 dagar frá móttöku þess.

Tengiliður sanngirnisbótaverkefnisins

Ingibjörg Gyða Guðrúnardóttir, þroskaþjálfi hefur verið ráðin tengliður sanngirnisbótaverkefnisins og verður hún með viðtalsaðstöðu hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, Hlíðasmára 1, 201 Kópavogi. Tengiliður sanngirnisbóta hefur það hlutverk að koma upplýsingum á framfæri við þá sem kunna að eiga bótarétt og aðstoða þá við framsetningu umsókna um sanngirnisbætur. Þá ber tengiliði einnig að leiðbeina fyrrverandi vistmönnum sem eiga um sárt að binda í kjölfar vistunar um úrræði sem ríki og sveitarfélög bjóða upp á, svo sem varðandi endurhæfingu og menntun. Félagsmálastjórar um land allt, sem og aðrir sem gæta hagsmuna þeirra sem kunna að eiga rétt til sanngirnisbóta, eru hvattir til að setja sig í samband við tengiliðinn ef spurningar vakna um sanngirnisbótaverkefnið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta