Forsætisráðherra ávarpar ráðstefnu Jafnvægisvogar FKA
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ávarpaði í dag stafræna ráðstefnu Jafnvægisvogarinnar FKA. Jafnvægisvogin er hreyfiaflsverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) og markmið hennar er að 2027 verði hlutfall kynja 40/60 í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:
„Þó að lög frá 2010 um kynjakvóta í stjórnum kveði á um minnst 40% hlutfall kvenna hefur lítið breyst á undanförnum áratug. Samkvæmt mælaborði Jafnvægisvogar FKA er hlutfall kvenna í stjórnum fyrirtækja á Íslandi 26,5% og hlutfall kvenkyns forstjóra og/eða framkvæmdastjóra 23,4%.
Þessar tölur sýna okkur að atvinnulífið verður að taka sér tak og fjölga konum á þessum vettvangi. Á meðan við getum verið stolt af árangri sem náðst hefur í jafnréttismálum hér á landi er ljóst að við verðum að halda baráttunni áfram.“
Forsætisráðuneytið hefur stutt FKA með sérstökum þjónustusamningi til að stuðla að auknu kynjajafnrétti í íslensku atvinnulífi og var samningurinn endurnýjaður í júní sl.