Hoppa yfir valmynd
14. október 2021 Utanríkisráðuneytið

Ráðherra flutti ávarp á viðskiptafundi með Friðriki krónprins

Á myndinni má m.a. sjá Guðlaug Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, Friðrik krónprins Danmerkur, Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur og Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. - myndLjósmynd/Birgir Ísleifur Gunnarsson.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra flutti ávarp við opnun viðskiptastefnumóts danskra og íslenskra fyrirtækja í Grósku í gær þar sem sjálfbærar orkulausnir voru í forgrunni. Friðrik krónprins Danmerkur leiðir dönsku sendinefndina og flutti einnig ávarp ásamt forseta Íslands Guðna Th. Jóhannessyni og Jeppe Kofod utanríkisráðherra Danmerkur. Í ávarpi sínu lagði Guðlaugur Þór áherslu á mikilvægi einkageirans til þess að ná árangri í umhverfis- og loftslagsmálum.

„Við lifum í samtengdum heimi þar sem lausnirnar þurfa að koma frá einkageiranum. Hið opinbera verður hins vegar að skapa réttu umgjörðina. Við verðum að láta hendur standa fram úr ermum þegar kemur að því að sporna við hnattrænni hlýnun og aðgerðum verða að fylgja hvatar til verka. Við þurfum á arðbærum lausnum að halda til að færa okkur í átt til græns hagkerfis. Ísland býr yfir gnægð sjálfbærra auðlinda en nýting þeirra er ekki án áskorana. Þessar áskoranir eru um margt drifkraftur nýsköpunar," sagði Guðlaugur Þór í ræðu sinni.

Markmið dönsku sendinefndarinnar er að styrkja samstarf og viðskiptatengsl Íslands og Danmerkur á sviði sjálfbærra orkulausna en Ísland er fyrsti áfangastaður krónprinsins á ferðum í þágu Danmerkur eftir að heimsfaraldurinn skall á.

Fulltrúar hóps ellefu valinna fyrirtækja á vegum Dansk Industri kynntu starfsemi sína fyrir gestum fundarins en fyrirtækin starfa öll á sviði grænna lausna. Að því loknu fór fram kynning á starfsemi Grænvangs í Grósku, samstarfsvettvangi atvinnulífs og stjórnvalda um loftslagsmál og grænar lausnir, sem byggir á fyrirmynd State of Green í Danmörku.

Dönsku fyrirtækin sem héldu kynningu í Grósku eru:

  • Copenhagen Infrastructure Partners
  • Nukissiorfiit
  • Haldor Topsøe
  • Burmeister & Wain Scandinavian Contractor
  • Hitachi ABB Power Grids Denmark
  • Kamstrup
  • NKT
  • Siemens Gamesa Renewable Energy
  • Per Aarsleff
  • Vestas Wind Systems
  • DSV

Fundinum stýrði Hildur Árnadóttir, stjórnarformaður Íslandsstofu, en að honum stóðu sendiráð Danmerkur á Íslandi, Samtök iðnaðarins og Dansk Industri ásamt State of Green Denmark og Grænvangi. Fulltrúar þeirra ávörpuðu einnig fundinn.

  • Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. - mynd
  • Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, og Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, á Bessastöðum í fyrrakvöld. - mynd
  • Kirsten Rosenvold Geelan, sendiherra Danmerkur á Íslandi, Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, Eliza Reid, forsetafrú, Friðrik krónprins Danmerkur, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, á Bessastöðum. - mynd
  • Á myndinni má sjá Eggert Guðmundsson forstöðumann Grænvangs, kynna starfsemina fyrir þeim Hildi Árnadóttur, stjórnarformanni Íslandsstofu, Thomas Bustrup, framkvæmdastjóra Dansk Industri, Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, og Friðriki krónprins. - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta