Hoppa yfir valmynd
18. október 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Álagi létt af Landspítala – fjölgun legurýma og 30 ný rými á Landakoti

Landspítali í Fossvogi - myndMynd: Heilbrigðisráðuneyti
Ný 16 rýma endurhæfingardeild verður opnuð á við Landspítala á Landakoti í byrjun nóvember og í byrjun febrúar fjölgar þeim um 14 til viðbótar. Þá verða níu líknarrými opnuð á Landakoti í lok október. Í ágúst sl. voru opnuð á Reykjalundi 14 endurhæfingarrými sem aðeins eru ætluð sjúklingum frá Landspítala. Í sama mánuði var sjúkrarýmum fjölgað um samtals 20 við heilbrigðisstofnanirnar á Suðurlandi og Suðurnesjum, 10 á hvorum stað með það að markmiði að draga úr álagi á Landspítala. Ráðist hefur verið í mörg önnur verkefni í þessu skyni. Sum þeirra eru þegar komin til framkvæmda en önnur í sjónmáli. Opnun líknarrýma á Landakoti felur í sér breytingu á þjónustu þar sem ekki hafa verið rekin þar líknarrými síðan árið 2011.

Legurýmum fjölgað um 52 frá í ágúst

Auk fyrrnefndra 14 endurhæfingarrýma á Reykjalundi og sjúkrarýmanna 20 við heilbrigðisstofnanirnar á Suðurlandi og Suðurnesjum hafa frá í ágúst verið opnuð tímabundið 18 rými við nokkur hjúkrunarheimili á höfuðborgarsvæðinu og í aðliggjandi heilbrigðisumdæmum. Þessi 18 rými eru skilgreind sem biðrými, ætluð einstaklingum sem bíða eftir varanlegri dvöl á hjúkrunarheimili og geta ekki verið heima. Alls eru þetta því 52 legurými sem opnuð hafa verið frá í ágúst. Þegar allt er talið fjölgar þannig legurýmum um 82 frá í ágúst og fram í febrúar næstkomandi.

Rúmur hálfur milljarður króna í aukna heimaþjónustu

Í ágúst sl. ákvað heilbrigðisráðherra að auka fjármagn til SELMU, öldrunarteymis heimaþjónustu Reykjavíkurborgar, úr 200 milljónum króna í 450 milljónir króna á ársgrundvelli. Í stað þess að veita aðeins þjónustu í Reykjavík virka daga, verður þjónustan veitt alla daga vikunnar og nær til alls höfuðborgarsvæðisins. Mat á þjónustu SELMU sem gert var í júní sl. leiddi í ljós að á starfstíma öldrunarteymisins hafði með aðkomu þess tekist að koma í veg fyrir 75 innlagnir á bráðamóttöku sem annars hefðu reynst óhjákvæmilegar. Auk 250 milljóna króna í aukið framlag til SELMU ákvað ráðherra í september að ráðstafa 100 milljónum króna samtals til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Heimaþjónustu Reykjavíkur sem varið verður til að efla notkun heilbrigðistæknilausna í þjónustu við fólk í heimahúsum. Samhliða ákvað ráðherra jafnframt að ráðstafa 200 milljónum króna til að efla geðheilbrigðisþjónustu við aldraða í heimahúsum.

Hágæslurými á Landspítala

Ákveðið hefur verið að koma á fót allt að sex hágæslurýmum á Landspítala og voru tvö slík rými tekin í notkun nú í október. Vonir standa til að unnt verið að opna fleiri fljótlega en það veltur á því hvernig gengur að tryggja mönnun. Hágæslurými eru ætluð sjúklingum sem eru veikari en svo að unnt sé að tryggja nægilegt eftirlit og meðferð á almennri bráðalegudeild og eru þau oftast rekin í nánu samstarfi við eða sem hluti af gjörgæslu.

Gamli Sólvangur fær mikilvægt hlutverk í öldrunarþjónustu

Fyrr á þessu ári gerðu heilbrigðisráðuneytið og Hafnarfjarðarbær með sér samning um endurbætur húsnæðis gamla Sólvangs fyrir öldrunarþjónustu og lýkur framkvæmdum um miðjan desember. Þar verða 39 rými ætluð til skammtímadvalar fyrir aldraða þar sem veitt verður létt endurhæfing og lagt mat á frekari þörf fólks fyrir stuðning að dvöl lokinni. Markmiðið er að efla getu fólks til að búa lengur heima. Gert er ráð fyrir að árlega verði hægt að veita að minnsta kosti 250 einstaklingum þessa þjónustu. Jafnframt verður opnuð í húsinu ný hjúkrunardeild fyrir 11 íbúa. Sjúkratryggingar Íslands vinna að samningi við Sóltún um rekstur þessara rýma en fyrir rekur Sóltún 60 hjúkrunarrými í nýja Sólvangi sem opnaði haustið 2019. Allt kapp er lagt á að reksturinn hefjist eins fljótt og unnt er.

Framantaldar aðgerðir eru allar til þess fallnar að létta álagi af Landspítala, auðvelda útskrift sjúklinga að lokinni meðferð og bæta aðstæður sjúklinga og starfsfólks á bráðadeild. Með því að fjölga rýmum víða í kerfinu, á spítalanum sjálfum og styðja við heimaþjónustu og heimahjúkrun er um að ræða styrkingu heilbrigðiskerfisins alls til lengri og skemmri tíma. Unnið er að fleiri verkefnum sem einnig munu koma Landspítala til góða, bæta þjónustu við sjúklinga og styrkja markmið um að veita rétta og tímanlega þjónustu á réttu þjónustustigi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta