COVID-19: Verulegar afléttingar innanlandstakmarkana strax og að fullu 18. nóvember
Almennar fjöldatakmarkanir verða 2.000 manns, grímuskyldu verður aflétt, opnunartími veitingastaða lengdur um klukkustund og skráningarskyldu gesta aflétt. Regla um nándarmörk verður áfram 1 metri. Þetta er megininntak breytinga á reglugerð um samkomutakmarkanir sem tekur gildi 20. október samkvæmt ákvörðun heilbrigðisráðherra. Stefnt er að fullri afléttingu samkomutakmarkana innanlands frá og með 18. nóvember.
Heilbrigðisráðherra kynnti áformaðar breytingar á fundi ríkisstjórnar í morgun. Byggt er á meðfylgjandi minnisblaði sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra þar sem tilgreindir eru þrír valkostir afléttinga á sóttvarnaráðstöfunum innanlands, þ.e. full aflétting allra sóttvarnaaðgerða, aflétting að hluta eða óbreyttar aðgerðir.
Breytingar frá og með 20. október:
Almennar fjöldatakmarkanir 2.000 manns í stað 500.
Nándarregla óbreytt 1 metri, með sömu undantekningum og verið hafa, s.s. á sitjandi viðburðum og þjónustu sem krefst mikillar nándar.
Með notkun hraðprófa má víkja frá fjöldatakmörkunum og nándarreglu.
Grímuskyldu aflétt að frátöldum sérstökum reglum á heilbrigðisstofnunum.
Skráningarskyldu á viðburðum og veitingahúsum aflétt.
Opnunartími veitingastaða þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar lengdur um klukkustund, til kl. 01:00. Rýma þarf staði fyrir kl. 02:00.
Full aflétting áformuð 18. nóvember
Stefnt er að fullri afléttingu allra samkomutakmarkana innanlands frá og með 18. nóvember, með fyrirvara um að faraldurinn þróist ekki verulega á verri veg, svo sem vegna mikillar fjölgunar innlagna á spítala vegna COVID-19 sem heilbrigðiskerfið ræður ekki við. Áfram verði beitt sýnatöku, einangrun, smitrakningu og sóttkví en þessi atriði verði þó endurskoðuð í samráði við sóttvarnalækni.
Forsendur breytinga
Í minnisblaði forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra til ríkisstjórnar, dags. 12. október 2021, var reifuð framkvæmd svokallaðrar temprunarleiðar og horfur framundan í faraldrinum. Þar kom meðal annars fram að leið temprunar, sem farin hefur verið í þessari bylgju faraldursins, ætti ekki að standa lengur en í takmarkaðan tíma nema alvarlegar breytingar yrðu á eðli faraldursins. Þegar öllum takmörkunum var aflétt í sumar fjölgaði smitum umtalsvert og álag á heilbrigðiskerfið jókst. Síðan hefur bólusetningarstaða hér á landi styrkst, m.a. með bólusetningu barna 12 til 15 ára, örvunarskammti fyrir viðkvæma hópa og viðbótarskammti fyrir einstaklinga sem fengu bóluefni Janssen. Þá sýndi sig að ráðstafanir sem gripið var til 25. júlí sl. með 200 manna fjöldatakmörkunum, nálægðartakmörkunum, grímuskyldu og takmörkuðum opnunartíma veitingastaða gáfust vel til að tempra útbreiðslu smita. Hægfara afléttingar þessara takmarkana hafa ekki enn valdið auknum innlögnum á spítala þótt fjöldi smita sé nokkuð stöðugur, eins og rakið er í minnisblaði sóttvarnalæknis. Stór hluti smitanna er meðal barna sem þurfa miklu síður á innlögn að halda vegna COVID 19.
Ráðherra og sóttvarnayfirvöldum er samkvæmt sóttvarnalögum skylt að leitast í sífellu við að aflétta gildandi sóttvarnaráðstöfunum í samræmi við þróun faraldursins og breytt hættumat eftir því sem ónæmi eflist í samfélaginu. Byggt skal á viðurkenndri læknisfræðilegri þekkingu á smitsjúkdómum og faraldsfræði þeirra. Til að aðgerðir nái ávallt þeim árangri sem að er stefnt, og gangi ekki lengra en þörf er á skal ávallt byggt á nýjustu þekkingu á þeim smitsjúkdómum sem við er að fást hverju sinni. Á þessu byggjast þær ákvarðanir ráðherra um breytingar á sóttvarnaráðstöfunum sem hér hafa verið raktar.