Forsætisráðherra ávarpaði alþjóðlega jarðhitaráðstefnu í Hörpu
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti í morgun ávarp við opnun alþjóðlegu jarðhitaráðstefnunnar World Geothermal Congress sem fram fer í Hörpu. Um er að ræða stærstu alþjóðlegu jarðhitaráðstefnu heims en hún er haldin á fimm ára fresti.
Í ávarpi sínu ræddi forsætisráðherra sérstaklega um markmið Íslands í loftslagamálum, um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, kolefnishlutleysi og að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti. Þá rakti forsætisráðherra langa sögu nýtingar jarðhita á Íslandi en hún nær raunar allt aftur til landnáms. Íslendingar hafi fyrr á öldum nýtt jarðhita til baða og þvotta en nýtingarmöguleikarnir nú eru miklu fleiri og í sífelldri þróun.
Spennandi þróun sé nú að eiga sér stað varðandi skilvirka nýtingu jarðhita, t.d. í grænum iðngörðum þar sem áhersla er lögð á hringrásarhagkerfið og í bindingu kolefnis í berg. Slík þróun geti skipt sköpum fyrir aðgerðir stjórnvalda gegn loftslagsvánni.