Lyfjalöggjöf Evrópusambandsins til endurskoðunar í opnu samráðsferli
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur efnt til opins samráðs um endurskoðun á lyfjalöggjöf sambandsins. Frestur til að koma á framfæri athugasemdum og sjónarmiðum varðandi löggjöfina er til 21. desember næstkomandi. Endurskoðunin er hluti af stefnu sambandsins í lyfjamálum og eins hefur faraldur Covid-19 leitt í ljós veikleika á þessu sviði sem þarf að bregðast við.
Meginmarkmið endurskoðunar lyfjalöggjafarinnar eru að tryggja nægt framboð lyfja og aðgengi að þeim á sanngjörnu verði, hvetja til nýsköpunar, m.a. á sviðum þar sem meðferðarúrræði skortir, hagnýta nýjar vísinda- og tækniaðferðir sem koma fram á sjónarsviðið og stuðla að einföldun kerfisins.
Sem dæmi um breytingar sem snúa að endurskoðun lyfjalöggjafarinnar má nefna mögulega notkun rafrænna fylgiseðla með lyfjum. Norðurlandaþjóðirnar hafa sameiginlega farið þess á leit við Evrópusambandið að reglur um fylgiseðla með lyfjum verði endurskoðaðar þannig að heimilt verði að nota rafræna fylgiseðla eingöngu. Samkvæmt gildandi reglum skulu lyfjapakkningar innihalda fylgiseðil með viðkomandi lyfi á tungumáli þess lands þar sem lyfið er selt. Fyrirkomulagið felur í sér ýmsa annmarka, ekki síst fyrir lítil málsvæði. Horft er til þess að rafrænir lyfseðlar auðveldi m.a. sameiginleg lyfjainnkaup þjóða sem stuðli að lægri kostnaði og auknu lyfjaframboði, auðveldara verði að tryggja öllum notendum lyfja upplýsingar á tungumáli sem þeir skilja og eins geti rafrænir lyfseðlar dregið úr sóun.
Eins og áður segir er frestur til að taka þátt í samráðsferli um lyfjalöggjöf Evrópusambandsins til 21. desember næstkomandi. Umsagnir sem berast verða birtar á vef samráðsins.