Markmið og aðgerðir Íslands á loftslagsráðstefnunni í Glasgow
Skilaboð Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, í ræðu sinni á loftslagsráðstefnunni í Glasgow voru skýr. Markmiðin frá París duga ekki til að hemja hlýnun jarðar. Gera þarf betur.
Hún greindi frá því að Ísland hafi á síðasta ári hækkað markmið sitt um samdrátt úr 40% í 55% fyrir árið 2030 í samfloti með ESB og Noregi. Enn fremur að Ísland hafi bæst í hóp þeirra 11 ríkja sem hafa lögfest markmið um kolefnishlutleysi og miði þar við árið 2040 og að Ísland hafi nú í september sett sér stefnu um aðlögun að loftslagsbreytingum í fyrsta sinn, aukið fjármögnun náttúrulegra lausna til að draga úr losun frá landi og binda meira kolefni.
Þá ræddi forsætisráðherra um þá nýju tækni sem felst í að binda kolefni í jarðvegi eins og þekkt er í Carbfix-verkefninu á Hellisheiði. Þá lagði hún sérstaka áherslu á mikilvægi réttlátra umskipta í öllum aðgerðum okkar og mikilvægi þess að tryggja jöfnuð og velsæld samhliða loftslagsaðgerðum.
Hún vitnaði í ræðu sinni í Andra Snæ Magnason, rithöfund, sem segir í bók sinni um Tímann og vatnið að við séum mótuð af okkar samtíma sem sé tími fólksins sem við elskum og þekkjum. Það sé einnig sá tími sem við mótum. „Allt sem við gerum skiptir máli. Við sköpum framtíðina á hverjum degi“, sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Íslendingar sjái ummerki hlýnunar í bráðnun jökla og að breytingar í hafinu geti haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir lífríkið.
Hún sagði mikilvægt að hlusta á unga fólkið sem krefðist aðgerða og undirstrikaði að jafnrétti yrði haft að leiðarljósi við ákvarðanatöku í loftslagsmálum. Ábyrgð okkar væri í senn gagnvart samtímamönnum okkar en ekki síður komandi kynslóðum.