Hoppa yfir valmynd
8. nóvember 2021 Dómsmálaráðuneytið

Freyja kemur til Siglufjarðar

Varðskipið Freyja lagðist að bryggju á Siglufirði laugardaginn 6. nóvember eftir fimm daga siglingu frá Rotterdam. Fjölmargir lögðu leið sína á Hafnarbryggjuna á Siglufirði til að berja skipið augum þegar það kom til hafnar í fylgd varðskipsins Týs, þyrlu Landhelgisgæslunnar og björgunarskipa Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Að auki keyrðu viðbragðsaðilar á Norðurlandi í samfloti frá Strákagöngum skipinu til heiðurs auk þess sem séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar skaut þremur heiðursskotum úr fallbyssu þegar skipið kom siglandi inn fjörðinn.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, og Elías Pétursson, bæjarstjóri Fjallabyggðar héldu ávarp á bryggjunni og óskuðu Landhelgisgæslunni og íslensku þjóðinni til hamingju með varðskipið Freyju.

Í mars 2021 tilkynnti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, að ráðist yrði í kaup á varðskipi fyrir Landhelgisgæslu Íslands sem kæmi í stað varðskipsins Týs. Útboð þar sem leitast var eftir öflugu, notuðu skipi fór fram í apríl og síðan var gengið frá samningum um kaup á heppilegu skipi. Allt ferlið tók einungis um 8 mánuði frá fyrstu hugmynd, þar til nýtt varðskip var bundið við bryggju á Siglufirði af kampakátum forstjóra Landhelgisgæslunnar í norðlensku hríðarveðri.

Landhelgisgæslan og dómsmálaráðuneytið hafa í sameiningu tekið þá ákvörðun að heimahöfn varðskipsins Freyju verði Siglufjörður og njóti skipið þjónustu þar og á Akureyri eftir þörfum. Varðskipið Þór verður sem fyrr gert út frá Reykjavík. Þessari ráðstöfun er ætlað að tryggja öryggi sjófarenda, landsmanna og auðlinda í hafi á sem bestan máta. Með auknum skipaferðum um norðurslóðir fjölgar ferðum stórra flutninga- og olíuskipa með austur- og norðurströndum landsins. Útlit er fyrir að ferðum skemmtiferðaskipa fjölgi einnig og þarf ekki að fjölyrða um þær hættur sem lífríkinu er búin ef eitthvað hendir eitt af þessum skipum. Þá geta klukkustundir til eða frá skipt sköpum.

Með Þór í Reykjavík og Freyju á Siglufirði hefur viðbragðsgeta Landhelgisgæslunnar umhverfis landið verið aukin og hægara verður um vik að tryggja öryggi sjófarenda, landsmanna og auðlinda í hafi. Landhelgisgæslan hefur þá á að skipa tveimur afar öflugum varðskipum, sérútbúnum til að sinna löggæslu, leit og björgun á krefjandi hafsvæðum umhverfis Ísland. Varðskipið Freyja er að miklu leyti sambærilegt varðskipinu Þór hvað stærð og aðbúnað varðar en það býr til að mynda yfir mun meiri dráttar- og björgunargetu en Þór. Varðskipið Freyja er 86 metra langt og 20 metra breitt.

Dómsmálaráðherra komst svo að orði í ræðu sinni á hafnarbakkanum á Siglufirði:
„Hlutverk öflugrar Landhelgisgæslu verður sífellt mikilvægara. Þegar varðskipið Þór lagðist að bryggju á Dalvík árið 2019 var hlutverk Landhelgisgæslunnar ekki að bjarga sjómanni í sjávarháska eða fótbrotnum á fjalli. Hlutverk varðskipsins þann daginn var að veita birtu og yl inn á sjálf heimili Dalvíkinga þegar mikið óveður hafði sligað mikilvæga innviði. Hvern hefði órað fyrir því að venjuleg íslensk fjölskylda, innan veggja heimilisins, hefði þurft á aðstoð varðskips að halda? Rétt eins og Siglufjörður, stendur Landhelgisgæslan traustum fótum í hefð og sögu íslenskrar sjósóknar. Rétt eins og Siglufjörður bregst Landhelgisgæslan nú við aukinni ásókn ferðamanna með bættri þjónustu í nýjum og breyttum heimi. Til hamingju með Freyju.“


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta