Forsætisráðherra stýrði ársfundi Heimsráðs kvenleiðtoga
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, stýrði ársfundi Heimsráðs kvenleiðtoga (Council of Women World Leaders) í Hörpu í dag. Fundurinn fór fram með fjarfundarbúnaði og var hann vel sóttur af núverandi og fyrrverandi forsetum og forsætisráðherrum.
Forsætisráðherra ræddi á fundinum um mikilvægi kynjasjónarmiða við endurreisn efnahags og samfélaga vegna heimsfaraldursins og mikilvægi þess að karlar og konur sitji við borðið þegar ákvarðanir verða teknar til að bregðast við loftslagsvánni, tæknibreytingum og öðrum stórum áskorunum.
Forsætisráðherra tók við formennsku í Heimsráði kvenleiðtoga í febrúar 2020 en ráðið var stofnað 1996 af Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands og Mary Robinson, fyrrverandi forseta Írlands, ásamt Lauru Liswood, stjórnmálafræðingi. Félagar í samtökunum eru starfandi og fyrrverandi forsetar og forsætisráðherrar úr röðum kvenna, alls 83 konur frá yfir fimmtíu ríkjum.
Markmið ráðsins er að hvetja konur í valdastöðum um heim allan til að láta sig jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna varða. Ráðið einsetur sér jafnframt að stuðla að góðum stjórnarháttum í því skyni að koma á jafnrétti og tryggja lýðræði.
Ársfundur Heimsráðsins er haldinn í tengslum við Heimsþing kvenleiðtoga sem fram fer þessa dagana í Hörpu.