Framboðsáherslur Íslands kynntar á aðalráðstefnu UNESCO
Fulltrúar Íslands kynntu áherslur sínar vegna framboðs til framkvæmdastjórnar UNESCO á aðalráðstefnu stofnunarinnar sem nú stendur yfir. Íslendingar hafa aukið starf sitt og framlög til þróunarsamvinnu innan UNESCO á undanförnum árum
Nú stendur yfir aðalráðstefna Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna í París (UNESCO). Ráðstefnan er haldin annað hvert ár en hún er æðsta stefnumótunar- og ákvörðunarvald UNESCO. Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, ávarpaði ráðstefnuna fyrir hönd íslenskra stjórnvalda þar sem Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra átti ekki heimangegnt.
Í ávarpinu kynnti ráðherrann áherslur Íslands vegna framboðsins sem kosið verður um í næstu viku. Um er að ræða sameiginlegt norrænt framboð en Norðurlöndin hafa í sameiningu lagt ríka áherslu á að norrænt ríki eigi sæti í stjórn UNESCO. Innan ríkjahóps Vesturlanda eru þrjú ríki í framboði um jafnmörg sæti. Auk Íslands eru það Austurríki og Tyrkland og ríkir því ekki samkeppni innan hópsins. Ef Ísland nær kjöri hefst fjögurra ára stjórnartímabil. Þeir fulltrúar ríkja sem sitja í stjórn hafa bein áhrif á framkvæmd ýmissa verkefna og málaflokka innan UNESCO.
Ráðherra lagði í ávarpi sínu jafnframt áherslu á mikilvægi þess að bregðast við heimsfaraldri vegna COVID-19 og stuðla að jafnara aðgengi að tækni og stafrænum lausnum. Hann hvatti einnig til enn kröftugra átaks í jafnréttismálum í störfum stofnunarinnar og að auka þátttöku karla í þeirri vinnu en jafnréttismál eru eitt af þverlægum markmiðum í stefnu UNESCO. Að sama skapi áréttaði hann mikilvægi mannréttindamiðaðrar nálgunar í verkefnum stofnunarinnar, með áherslu á réttindi og öryggi hinsegin fólks.
Ráðherra tók einnig upp möguleika til menntunar en miklar áskoranir blasa víða við í þeim efnum, ekki síst vegna yfirstandandi heimsfaraldurs. Þar væri mikilvægt að leggja áherslu á sjálfbærra þróun og baráttu gegn loftslagsvá. Ennfremur var undirstrikað í ávarpinu að vinna þyrfti áfram á vettvangi UNESCO gegn upplýsingaóreiðu og aðför að fjölmiðlafrelsi. Íslendingar hafa aukið fjárhagslegan stuðning við ýmis þróunarverkefni innan UNESCO að undanförnu, m.a. á sviði fjölmiðlauppbyggingar og menntunar í þróunarlöndum.
Á föstudag sækir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, viðburð í París í tilefni af 75 ára afmæli UNESCO. Kosningin til framkvæmdastjórnar stofnunarinnar fer svo fram miðvikudaginn 17. nóvember.