Opnað á umsóknir um styrki til verkefna sem felast í hreinsun á strandlengju Íslands
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið auglýsir eftir umsóknum lögaðila, s.s. félagasamtaka eða áhugamannafélaga um styrki til verkefna sem felast í hreinsun strandlengju Íslands.
Styrkirnir eru veittir á grundvelli aðgerðar 17 í aðgerðaráætlun umhverfis- og auðlindaráðuneytisins í plastmálefnum Úr viðjum plastsins. Aðgerðin felur í sér að sett verði af stað átak til 3 – 5 ára til allsherjarhreinsunar strandlengjunnar af plasti og öðrum úrgangi. Hreinleiki sjávar er Íslandi afar mikilvægur og strandhreinsanir gegna þar veigamiklu hlutverki. Strandlengjan er um 5.000 km að lengd og er því nauðsynlegt að framkvæma hreinsun hennar með kerfisbundnum hætti. Sjálfboðaliðar og frjáls félagasamtök hafa gegnt lykilhlutverki við hreinsun íslenskra stranda hingað til og með aðgerðinni og þessum styrkveitingum er ætlunin að svo verði áfram.
Tilgangurinn með styrkveitingunum er sá að strandlengja Íslands verði hreinsuð með skipulegum hætti, hreinsuðum ströndum verði haldið við, efla vitundarvakningu hjá almenningi um mikilvægi strandhreinsana og virkja áhugasama aðila til þátttöku í átaki um hreinsun strandlengjunnar. 10 m.kr. verður varið í gerð fræðsluefnis og gagnagrunns fyrir verkefnið, en gert er ráð fyrir að styrkþegar veiti Umhverfisstofnun upplýsingar um framgang hvers verkefnis og tölulegar upplýsingar um magn þess úrgangs sem hreinsað er.
Gert er ráð fyrir að styrkjum verði veitt til afmarkaðra verkefna og verða þeir almennt veittir til eins árs í senn.
Heildarstyrkupphæð vegna verkefnisins fyrir árið 2021 eru 20 m.kr.
Ráðgert er að auglýsa úthlutun fyrir árið 2022 í janúar 2022.
Umsóknir óskast sendar á netfangið [email protected]
Nánari upplýsingar um styrkveitingar verða birtar á vef ráðuneytisins.
Reglur um styrkveitingar til verkefna sem felast í hreinsun á strandlengju Íslands
Nánari upplýsingar veitir Trausti Ágúst Hermannsson, s. 545-8600, netfang: [email protected]
Umsóknarfrestur er til 30. nóvember nk.