Norrænir þróunarsamvinnuráðherrar ræddu ástandið í Eþíópíu
Þróunarsamvinnuráðherrar Norðurlanda hittust á fjarfundi í dag til að ræða stöðuna í Eþíópíu. Ráðherrarnir lögðu áherslu á mikilvægi þess að mannúðaraðstoð næði til bágstaddra og að pólitískra lausna væri leitað.
Spennan í landinu hefur stigmagnast og er ljóst að neyð fer vaxandi. Norrænu ráðherrarnir sammæltust um að eiga áfram með sér náið samráð um stöðuna og leita leiða til að styðja við friðarumleitanir og koma aðstoð til fólksins í landinu í samvinnu við alþjóðastofnanir og hjálparsamtök.
Fundinn sóttu þróunarmálaráðherrarnir Ville Skinnari, Finnlandi, Anna Beathe Tvinnereim, Noregi, Per Olsson Fridh, Svíþjóð, Flemming Møller Mortensen, Danmörku. María Mjöll Jónsdóttir, skrifstofustjóri alþjóða- og þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins, tók þátt í fundinum fyrir hönd Íslands.