Hoppa yfir valmynd
16. nóvember 2021 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið, Utanríkisráðuneytið, Forsætisráðuneytið

Ríki vilja halda hitastigi undir 1,5 gráðum

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. - mynd

Á loftslagsráðstefnunni COP26 sem lauk í Glasgow um helgina, staðfestu aðildarríki loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna mikilvægi þess að halda hækkun hitastigs jarðar undir 1,5°C. Staðfestingin er mikilvæg fyrir áframhaldandi baráttu gegn loftslagsbreytingum.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir samkomulag 197 aðildarríkja Loftssamningsins um stærstu málefni samtímans gefa tilefni til bjartsýni.

Með samþykkt Parísarsamningsins árið 2015, settu aðildarríkin sér það markmið að tryggja að hlýnun jarðar yrði innan við 2°C og að reynt yrði að halda henni innan við 1,5°C. Aðildarríki Parísarsamningsins sendu inn markmið um minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda, svokölluð landsframlög, sem eiga að stuðla að því að heildarmarkmið samningsins náist. Þau markmið sem lögð voru fram í París dugðu þó ekki til þess, heldur stefndi skv. þeim í a.m.k. 3,6°C meðaltalshlýnun á jörðinni, samkvæmt útreikningum Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP).

Fyrir fundinn í Glasgow áttu ríki einnig að senda inn uppfærð landsmarkmið, en útreikningar UNEP sýndu að líkleg hlýnun skv. þeim stefndi í að verða 2,7°C. Þegar tekið hefur verið tillit til nýrra yfirlýsinga ríkja á fundinum í Glasgow stefnir nú í 2,4°C hlýnun. Ljóst er því að ríki heims þurfa að uppfæra markmið sín enn frekar, og er ætlast til að þau geri það fyrir lok næsta árs í samræmi við markmið Parísarsamkomulagsins. Öll ríki þurfa að vinna af krafti að framgangi áætlana í loftslagsmálum en á fundinum voru  stigin mikilvæg skref í rétta átt. 

Helstu niðurstöður fundarins eru eftirfarandi:

  • Samkomulag 197 aðildarríkja samningsins um stærstu málefni samtímans gefur tilefni til bjartsýni.
  • Staðfesting allra ríkja um mikilvægi þess að halda hækkun hitastigs undir 1,5 gráðum er söguleg.
  • Þar sem samanlögð landsmarkmið ríkja um samdrátt í losun eru líklegt til að leiða til 2,4°C hlýnunar þurfa þau að vera metnaðarfyllri. Í ákvörðun fundarins er þess krafist af ríkjum heims að þau setji sér metnaðarfyllri markmið í samræmi við markmið Parísarsamkomulagsins fyrir lok árs 2022.
  • Ríki eru hvött til þess að uppfæra landsmarkmið á fimm ára fresti til næstu tíu ára, næst árið 2025.
  • Skrifstofu Loftslagssamningsins var falið að uppfæra árlega stöðuskýrslu varðandi landsmarkmið ríkja þar sem fram komi hverju þau muni geta skilað í samdrætti í losun. Skýrsluna skal leggja fyrir aðildaríkjafund hverju sinni.
  • Tryggja þarf að uppfyllt verði að fullu eldra loforð um 100 milljarða dala árleg fjárframlög til þróunarríkja fyrir árið 2020, en enn skortir nokkuð upp á að það markmið náist.
  • Frágangur á svonefndri Reglubók Parísarsamningsins er lokið, og þar með útfærslu samningsins.
  • Í fyrsta skipti er í lokaákvörðun loftslagsþingsins talað um að draga skuli úr notkun kola og að draga úr niðurgreiðslum á jarðefnaeldsneyti.
  • Þróuð ríki ætla að tvöfalda framlög til aðlögunar að áhrifum loftslagsbreytinga í þróunarríkjum.
  • Í lokaákvörðun loftslagsráðstefnunnar er lögð áhersla á málefni hafsins, jökla og líffræðilegrar fjölbreytni og á vernd og endurheimt náttúru og vistkerfa svo ná megi markmiðum loftslagssamningsins.
  • Áhersla er á réttlát umskipti, jafnrétti og mannréttindi í þeim breytingum sem eru fram undan og að aðkoma ungs fólks að undirbúningi verkefna og ákvarðana sé sem mest.

Ísland skrifar undir fimm yfirlýsingar á COP26

Á loftslagsráðstefnunni skrifuðu fulltrúar Íslands undir fimm yfirlýsingar sem tengjast markmiðum í loftslagsmálum. Yfirlýsingarnar varða losun metans, skóga og landnotkun, hraðari innleiðingu rafbíla, losun frá siglingum og stuðning við framgang hreinnar orku á kostnað jarðefnaeldsneytis á heimsvísu.

Yfirlýsingarnar eru utan ramma Parísarsamningsins. Ljóst er þó að þær geta stutt við markmið samningsins um að halda hlýnun lofthjúps jarðar innan við 1,5 gráður, ef tekst að hrinda markmiðum yfirlýsinganna í framkvæmd.

Yfirlýsingarnar varðandi skóga og losun metans fengu mikið vægi á fundinum og hafa yfir hundrað ríki, Ísland þeirra á meðal, ritað undir hvora yfirlýsingu. Með Glasgow-yfirlýsingu leiðtoga um skóga og landnotkun skuldbinda ríki sig til þess að stöðva og snúa við tapi á skógum og landeyðingu fyrir árið 2030 og talsvert fjármagn á að leggja til þess verkefnis. Ísland er þar ágætlega sett með efldum aðgerðum í skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis, en hefur möguleika til að gera enn betur. Yfirlýsing um samdrátt í losun metans um 30% til 2030 miðað við 2020 felur í sér sameiginlegt markmið en ekki markmið fyrir einstök ríki. Losun metans hér á landi er að meirihluta frá landbúnaði og afgangurinn að mestu frá meðferð úrgangs.

Ísland undirritaði einnig yfirlýsingu um hreinorkubíla sem hvetur ríki til að herða sóknina í innleiðingu rafbíla og annarra hreinorkubíla og setur markmið um að þeir verði 100% af bílasölu hjá þróuðum ríkjum eigi síðar en árið 2035. Ísland hefur sett sér enn metnaðarfyllri markmið en sett eru fram í yfirlýsingunni, með banni við innflutningi bensín og dísel bifreiða árið 2030, og er nú í öðru sæti í heiminum í rafbílavæðingu.

Þá undirritaði Ísland yfirlýsingu um að styðja hrein orkuskipti á heimsvísu, en þróunaraðstoð Íslands og annar alþjóðlegur stuðningur við orkuverkefni hefur eingöngu verið til þess að stuðla að notkun endurnýjanlegrar orku.

Loks ritaði Ísland undir yfirlýsingu um að draga úr losun frá siglingum og stöðva hana með öllu fyrir árið 2050. Þetta á einkum að gera með starfi innan Alþjóða siglingamálastofnunarinnar (IMO) og aðgerðum heima fyrir. Áður hafa íslensk stjórnvöld stutt metnaðarfull markmið til að draga úr losun frá siglingum innan IMO og að draga hraðar úr notkun svartolíu á Norðurslóðum.

  • Ríki vilja halda hitastigi undir 1,5 gráðum - mynd úr myndasafni númer 1
  • Hluti íslensku sendinefndarinnar á Loftslagsráðstefnunni. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta