Niðurstöður vinnustofu um rétta geðheilbrigðisþjónustu á réttum stað
Heilbrigðisráðherra fól forstjóra Landspítala síðastliðið vor að halda vinnustofu um þjónustuferla undir formerkjunum „rétt geðheilbrigðisþjónusta á réttum stað“ með fulltrúum notenda og fulltrúum allra þjónustuveitenda geðheilbrigðisþjónustu í landinu. Markmiðið var að móta tillögur um bætt þjónustuferli sem mætir þörfum notenda og fjölskyldna þeirra. Meðfylgjandi er skýrsla með niðurstöðum vinnustofunnar og tillögum til ráðherra. Niðurstöðurnar verða nýttar inn í stefnumótun um framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til ársins 2030.
Tæplega 100 manns sátu vinnustofuna. Úr hópi fagfólks voru 56 þátttakendur sem veita þjónustu á fyrsta, öðru og þriðja stigi geðheilbrigðisþjónustu, 26 sem starfa við þjónustu á vegum sveitarfélaga, félagasamtökum, grasrótarsamtökum og annarri þjónustu og 12 einstaklingar komu úr hópi notenda geðheilbrigðisþjónustu.
Hluta tímans sem vinnustofan hafði til ráðstöfunar var varið í að greina núverandi stöðu geðheilbrigðisþjónustu samkvæmt mati þátttakenda. Að því búnu hófst vinna við að draga upp mynd af þjónustuferlinu eins og þátttakendur myndu vilja sjá það til framtíðar og móta tillögur til úrbóta. Tillögurnar byggjast á þjónustuferli sem tekur mið af skilgreiningum á fyrsta, annars og þriðja stigs geðheilbrigðisþjónustu og samspili þar á milli.
Tillögurnar lúta í fyrsta lagi að verkefnum sem þátttakendur í vinnustofunni telja forsendu þess að innleiða það þjónustuferli sem lagt er til í meðfylgjandi skýrslu. Aðrar tillögur snúast um tiltekin markmið eða ákveðin svið og eru flokkaðar á eftirfarandi hátt:
- Leiðir til að stytta biðtíma.
- Forvarnir.
- Bætt þjónusta með innleiðingu málastjóra á fyrsta stigi geðheilbrigðisþjónustu.
- Samráð við notendur til valdeflingar.
- Samskipti og upplýsingamiðlun til notenda.
- Skilgreining verklags um hvenær oghvernig notendur skuli færast á milli þjónustustiga.
- Skilgreining verklags um flæði upplýsinga milli kerfa og þjónustueininga, tillögur um samskipti fagfólks til að auka samfellu í þjónustu, einfalda þjónustuleiðir og bæta samvinnu.
Liður í stefnumótun um framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum
Verið er að leggja lokahönd á mótun stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030. Þar er tekið mið af markmiðum heilbrigðisstefnu til ársins 2030 og lýðheilsustefnu til sama tíma. Árið 2020 stóð heilbrigðisráðherra fyrir fjölmennu geðheilbrigðisþingi um framtíðarsýn í þessum málaflokki og í tengslum við það voru haldnar vinnustofur þar sem fram fór mikil vinna sem liður í stefnumótuninni. Skýrsla byggð á niðurstöðum geðheilbrigðisþingsins var birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda og lauk umsagnarferlinu 18. ágúst síðastliðinn. Afrakstur meðfylgjandi skýrslu frá vinnustofunni um rétta geðheilbrigðisþjónustu á réttum stað verður jafnframt nýtt við þá stefnumótun í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 sem nú fer að ljúka.
Í meðfylgjandi skýrslu má lesa nánar um framkvæmd vinnustofunnar, mat þátttakenda á núverandi þjónustu og tillögur til úrbóta í samræmi við framtíðarsýn um þjónustuferli geðheilbrigðisþjónustu sem birt er á myndrænan hátt í skýrslunni.
(Ljósmyndir: Þorkell/Landspítali)