Bætt matstæki fyrir börn og ungmenni stuðla að markvissari greiningum
Unnið er að því í samvinnu heilbrigðisráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis að uppfæra sérhæfð matstæki sem sálfræðingar og geðlæknar nýta þegar grunur leikur á að einstaklingar glími við þroskatengdan vanda eða geðheilsuvanda.
Sálfræðileg vitsmunaþroskapróf eru mikilvæg fyrir áreiðanlega greiningu á vanda einstaklinga og löngu tímabært að uppfæra þau. Dæmi um slík matstæki eru próf sem notuð eru til að meta þroskafrávik, námserfiðleika, ADHD og einhverfu hjá börnum og ungmennum, þarfir fyrir snemmtæka íhlutun og innlagnir á Barna- og unglingageðdeild. Greining fagaðila liggur til grundvallar viðeigandi þjálfun, kennslu og meðferð og stuðlar þannig að betri framtíðarhorfum fyrir viðkomandi einstaklinga.
„Það er brýnt að færa þessi mál til betri vegar og við höfum þegar stigið fyrstu skrefin í þá veru með því að fela Háskóla Íslands að hefja fyrsta áfanga að uppfærslu vitsmunaþroskaprófa fyrir börn á leikskólaaldri og börn á grunnskólaaldri,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
„Til að veita rétta, góða og árangursríka þjónustu þeim börnum sem glíma við vanda eins og hér um ræðir er grundvallaratriði að vita nákvæmlega í hverju vandinn felst. Vitsmunaþroskaprófin skipta öllu máli við þessa greiningu, því niðurstöðurnar geta ráðið úrslitum um að rétt meðferðaleið sé valin þannig að barnið fái bestu skilyrði til að vaxa og dafna“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Heildarframlag heilbrigðisráðuneytis og mennta- og menningarmálaráðuneytis til Háskóla Íslands vegna fyrsta áfanga verkefnisins nemur rúmum 40 milljónum kr. Fjármagninu verður varið til ráðninga starfsfólks, kaupa, þýðingar og staðfærslu á matstækjum og forprófunar prófgagna.