Hoppa yfir valmynd
26. nóvember 2021 Utanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór fundaði með viðskiptafulltrúum breskra stjórnvalda

Guðlaugur Þór sótti fundinn í gegnum fjarfundarbúnað - myndUtanríkisráðuneytið.

Sterk tengsl Íslands og Bretlands og áhersla beggja ríkja á að styrkja samstarf ríkjanna enn frekar í kjölfar útgöngu Breta úr Evrópusambandinu var efst á baugi á fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra með breska þingmanninum Felicity Buchan sem var nýverið skipuð af forsætisráðherra Bretlands sem sérstakur erindreki Bretlands til að efla viðskipti við Ísland. Guðlaugur Þór tók þátt í fundinum með fjarfundarbúnaði.

Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra segir fundinn í dag hafa verið afar gagnlegan og að hann gefi tilefni til að líta björtum augum til framtíðar.

„Samskipti Íslands og Bretlands hafa aukist til muna eftir útgöngu þeirra úr ESB og bresk stjórnvöld hafa sýnt það í verki að samskiptin við Ísland eru þeim mikilvæg. Nú síðast með því að skipa sérstakan erindreka úr hópi þingmanna gagngert til að efla viðskiptasamstarfið. Fundurinn í dag var afar gagnlegur og veitir góða innsýn inn í nýja viðskiptastefnu Breta og gefur okkur tilefni til þess að líta björtum augum til framtíðar,“ sagði Guðlaugur Þór.

Á fundinum voru einnig Chris Barton, viðskiptafulltrúi fyrir Evrópu í breska utanríkisviðskiptaráðuneytinu og Bryony Mathew, sendiherra Bretlands á Íslandi, auk Martins Eyjólfssonar ráðuneytisstjóra utanríkisráðuneytisins. Þau Buchan og Barton eru í stuttri heimsókn á Íslandi og hafa átt fundi með íslenskum aðilum sem stunda viðskipti við Bretland.

Möguleikar til frekara samstarfs í viðskiptum, sjávarútvegi, loftlagsmálum og grænum lausnum voru einnig ræddir til viðbótar við nýgerðan fríverslunarsamning ríkjanna. Ráðgert er að samningurinn taki gildi snemma á næsta ári en í millitíðinni er í gildi bráðabirgðafríverslunarsamningur.

Auk fríverslunarsamningsins hafa Ísland og Bretland á undanförnum misserum lokið við gerð fjölmargra samninga og samstarfsyfirlýsinga. Má þar t.a.m. nefna loftferðasamning, samning um dvalar- og atvinnuleyfi ungs fólks, samning um menntun, rannsóknir, nýsköpun og geimvísindi auk samstarfsyfirlýsinga um sjávarútvegsmál og um almennan samstarfvettvang ríkjanna.

  • Felicity Buchan, sérstakur erindreki Bretlands til að efla viðskipti við Ísland, Bryony Mathew, sendiherra Bretlands á Íslandi og Chris Barton, viðskiptafulltrúi fyrir Evrópu í breska utanríkisviðskiptaráðuneytinu. - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta