Hoppa yfir valmynd
29. nóvember 2021 Utanríkisráðuneytið

Þórdís Kolbrún tekin við lyklavöldum í utanríkisráðuneytinu

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir er nýr utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. Hún tekur við embættinu af Guðlaugi Þór Þórðarsyni sem sest nú í stól umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. - myndUtanríkisráðuneytið

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir tók í dag við lyklavöldum í utanríkisráðuneytinu úr hendi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, fráfarandi utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. Þórdís Kolbrún er fjórða konan til að gegna embætti utanríkisráðherra.

Þórdís Kolbrún er varaformaður Sjálfstæðisflokksins og hefur setið á Alþingi frá árinu 2016. Þórdís Kolbrún er lögfræðingur, var framkvæmdastjóri þingflokks Sjálfstæðisflokksins 2013-2014 og var aðstoðarmaður innanríkisráðherra 2014-2016. Hún tók við embætti ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra 11. janúar 2017 og gegndi því til 28. nóvember 2021.

Þórdís Kolbrún er fædd á Akranesi 4. nóvember 1987. Maki Þórdísar er Hjalti Sigvaldason og börn þeirra eru Marvin Gylfi og Kristín Fjóla.

„Það er heiður og ánægja að vera utanríkisráðherra íslensku þjóðarinnar. Þú munt finna það í þessu húsi að hér eru allir tilbúnir til að leggja sig fram að til að gera þér lífið auðveldara í þessu mikilvæga embætti. Ég óska þér alls velfarnaðar og hlakka til samstarfsins,“ sagði Guðlaugur Þór en hann sest nú í stól umhverfis-, orku- og loftslagsherra

„Ég held að þau verði mörg verkefnin sem við munum vinna saman þar sem þínir verðandi málaflokkar eru stór hluti af utanríkisstefnu okkar og tækifærum, bæði fyrir umheiminn en ekki síður fyrir íslenskt samfélag. Ég hlakka virkilega til þess að takast á við þessi nýju verkefni,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Þórdís Kolbrún er 24. utanríkisráðherra lýðveldisins og fjórða konan sem gegnir embættinu. Hún er jafnframt yngsti utanríkisráðherra í sögu þjóðarinnar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta