Hoppa yfir valmynd
30. nóvember 2021 Dómsmálaráðuneytið

Jón Gunnarsson tekur við lyklavöldum af Áslaugu Örnu

Jón Gunnarsson, nýr innanríkisráðherra, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, fráfarandi dómsmálaráðherra - myndDMR

Jón Gunnarsson tók við lyklavöldum í dómsmálaráðuneytinu í morgun af Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, sem hefur gegnt embætti dómsmálaráðherra í rúm tvö ár.
Jón verður innanríkisráðherra í nýrri ríkisstjórn en nýtt innanríkisráðuneyti tekur til starfa um eða eftir áramót, þegar skiptingu málefnasviða innan Stjórnarráðsins lýkur. Verkefni ráðuneytisins verða í aðalatriðum þau sömu og dómsmálaráðuneytið hefur.

Í nýjum stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er fjallað um löggæslu. Í sáttmálanum segir: „Lögreglan og önnur lögregluyfirvöld þurfa að vera í stakk búin til að mæta þeim miklu samfélagslegu áskorunum sem leiða af skipulagðri glæpastarfsemi, tækniþróun, nýjum hugbúnaðarlausnum, hnattvæðingu og fjarskipta- og nettengingum.“
Í sáttmálanum segir að unnið verði að umbótum í þjónustu og rekstri sýslumanna í samræmi við útgefna framtíðarsýn þar um, auk þess að ráðast í hagræðingu verkefna samhliða stafrænni þróun.

Þá verði einnig ráðist í framhald aðgerðaáætlunar um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins þegar hún rennur sitt skeið 2022. Þar verður m.a. litið til atriða er varða sáttamiðlun og styttri málsmeðferðartíma.

Unnið verður að styttingu boðunarlista í fangelsi og haldið áfram við uppbyggingu á Litla-Hrauni. Stuðlað verði að auknu aðgengi fanga að fjölbreyttri menntun, virkni og stuðningi að afplánun lokinni.

Loks segir að áfram verði haldið við endurskoðun kosningalaga samhliða innleiðingu breytinga og nýs fyrirkomulags Landskjörstjórnar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta