Forsætisráðherra tók þátt í leiðtogafundi Bandaríkjaforseta um lýðræði
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók í dag þátt í leiðtogafundi Joe Biden Bandaríkjaforseta um lýðræði. Fundinn sátu um 100 þjóðarleiðtogar alls staðar að úr heiminum.
Leiðtogafundurinn er hluti heimsfundar um lýðræði - Summit for Democracy - sem stendur yfir í dag og á morgun. Í opnunarávarpi sínu sagði Bandaríkjaforseti stærstu áskorun samtímans vera að sýna fram á að þróun lýðræðis sé leiðin til að takast á við stærstu vandamál heimsins og til að bæta lífskjör fólks.
Á viðburðinum var flutt upptaka af ávarpi Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Þar lagði forsætisráðherra áherslu á að efling og útbreiðsla lýðræðis væru stór þáttur í þjóðarvitund Íslendinga sem og í stefnu íslenskra stjórnvalda.
„Við höfum því miður séð bakslag víða um heim á undanförnum árum þegar kemur að lýðræði, mannréttindum og jafnrétti kynjanna. Þessari þróun verðum við að snúa við,“ sagði forsætisráðherra í ávarpi sínu.
Stærsta sameiginlega áskorunin til lengri tíma sé baráttan gegn loftslagsbreytingum. Þar þurfi allir að axla ábyrgð og efnuðustu ríkjunum beri þar að auki siðferðisleg skylda til að leggja meira af mörkum í þeirri baráttu og styðja betur við fátækari ríki. Einnig þurfi að tryggja að nauðsynlegar breytingar á borð við orkuskipti og hringrásarhagkerfi leiði ekki til ójöfnuðar.
Þá ræddi forsætisráðherra sérstaklega þá miklu áherslu sem íslensk stjórnvöld leggja á jafnréttismál og réttindi hinsegin fólks, jafnt innanlands sem og á alþjóðavettvangi.