Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra ávarpaði fund Viðskiptaráðs
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ávarpaði í gær fund Viðskiptaráðs þar sem utanríkisviðskipti voru efst á baugi en fundurinn bar yfirskriftina „Hvert fer álið og hvaðan koma ávextirnir?“.
Þórdís Kolbrún hóf mál sitt á því að leggja áherslu á hlutverk utanríkisráðuneytisins sem ráðuneyti utanríkisviðskipta.
„Í fyrsta lagi stendur metnaður minn vitaskuld til þess að beina kröftum mínum mjög að viðskiptatengdum málum. Eitt af aðalverkefnum utanríkisþjónustunnar er að greiða fyrir viðskiptum og skapa tækifæri. Tækifæri svo atvinnulífið geti – fyrst og fremst á viðskiptalegum forsendum – ákveðið hvert álið fer og hvaðan ávextirnir koma – svo vísað sé í heiti fundarins. En þetta getur svo hæglega átt við um þjónustuviðskipti líka,“ sagði Þórdís Kolbrún í ræðu sinni.
Þórdís Kolbrún undirstrikaði jafnframt þau tæki og tól sem utanríkisþjónustan hefur til að greiða götu íslensks viðskiptalífs á erlendum mörkuðum og skapa fyrir þau tækifæri.
„Viðskiptaþjónustan, Íslandsstofa og sendiskrifstofur okkar víða um heim vinna að því að tengja saman fólk, greina tækifæri, greiða götu fyrirtækja á erlendum mörkuðum og efla orðspor Íslands. Það er von mín að sú starfsemi sé gagnleg og nýtist vel og ég vil gjarnan biðja ykkur um að leyfa mér að frétta af því hvernig þessi þjónusta er að gagnast fyrirtækjum,“ sagði utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra enn fremur.
Ráðherra vék sömuleiðis að þeim tækifærum sem nú þegar eru til staðar fyrir íslensk fyrirtæki.
„Jarðvegurinn hefur aldrei verið eins frjór og nú vegna þeirrar grænu og stafrænu byltingar sem er kannski bara rétt að byrja. Í því felast gríðarleg tækifæri fyrir viðskiptalífið enda ljóst að það mun gegna lykilhlutverki við að skapa þær grænu lausnir sem nauðsynlegar eru til að við náum markmiðum okkar um kolefnishlutlaust Ísland 2040,“ sagði Þórdís Kolbrún.
Ræðuna má lesa í heild sinni hér.