Forsætisráðherra opnaði málþing um mannréttindi á tímum loftslagsbreytinga
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, flutti opnunarávarp á málþingi um mannréttindi og réttlæti á tímum loftslagsbreytinga. Alþjóðamálastofnun, Mannréttindastofnun Háskóla Íslands og utanríkisráðuneytið stóðu fyrir málþinginu í tilefni af alþjóðadegi mannréttinda í Veröld, húsi Vigdísar í hádeginu í dag.
Forsætisráðherra talaði um mikilvægi þess að alþjóðasamfélagið bregðist við þeirri ógn sem steðjar að mannréttindum vegna loftslagsvárinnar. Nauðsynlegar aðgerðir þurfi að byggjast á vísindalegri þekkingu og félagslegu réttlæti þar sem hugað er að viðkvæmustu hópunum í samfélögum. Forsætisráðherra benti á að réttlát umskipti séu orðin lykilatriði í stefnumótun stjórnvalda í baráttunni gegn loftslagsbreytingum en þau eiga að tryggja jöfnuð og réttindi allra. Þá ræddi hún þau ólíku áhrif sem loftslagsbreytingar hafa á kynin og minntist í því samhengi á COVID-19 og hvernig við hefðum séð bakslag í jafnréttismálum aukast í heimsfaraldrinum og hvaða lærdóm við gætum dregið af þeirri þróun í baráttunni við loftslagsvána.