Auðunn Atlason verður alþjóðafulltrúi forsætisráðuneytisins
Auðunn Atlason sendiherra mun taka við starfi alþjóðafulltrúa forsætisráðuneytisins frá og með 1. febrúar nk. Hlutverk alþjóðafulltrúa er að vera ráðgjafi forsætisráðherra í utanríkismálum og hafa yfirsýn og halda utan um erlend samskipti forsætisráðherra og forsætisráðuneytisins.
Alþjóðafulltrúi annast dagleg samskipti, samráð og samræmingu verkefna við utanríkisráðuneytið og sendiskrifstofur Íslands erlendis. Þá fellur undir verksvið hans að eiga samskipti við önnur ráðuneyti og stofnanir eins og verkefni krefjast og erlenda aðila, stofnanir, alþjóðastofnanir og samtök. Alþjóðafulltrúi er tengiliður forsætisráðuneytisins við erlend sendiráð á Íslandi og erlenda sendiherra með búsetu utan Íslands.
Auðunn Atlason er stjórnmálafræðingur að mennt frá FU Berlin í Þýskalandi og hefur starfað í utanríkisþjónustunni frá árinu 1999. Hann er núverandi sendiherra Íslands í Finnlandi, og gagnvart Eystrasaltsríkjunum og Úkraínu. Áður var hann fastafullrúi Íslands hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu og öðrum alþjóðastofnunum í Vínarborg. Þá hefur Auðunn starfað fyrir utanríkisþjónustuna í Washington D.C. í Bandaríkjunum og Nýja-Delí á Indlandi. Í utanríkisráðuneytinu starfaði hann síðast sem yfirmaður Norðurlandadeildar. Auðunn tekur við starfinu af Auðbjörgu Halldórsdóttur sem snýr til baka til starfa í utanríkisráðuneytinu þar sem hún mun hafa umsjón með stjórnarsetu Íslands í UNESCO.