Gjaldskrárbreytingar um áramót – óbreytt komugjöld í heilsugæslu
Engar hækkanir verða á komugjöldum í heilsugæslu um áramótin. Almenn komugjöld lækkuðu 1. janúar 2021 úr 700 krónum í 500 krónur. Þessi gjöld eru óbreytt og sem fyrr greiða börn, öryrkjar og aldraðir ekkert komugjald. Gjöld sjúkratryggðra fyrir heilbrigðisþjónustu að öðru leyti hækka um 2,5% frá 1. janúar sl. í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands. Frá sama tíma hækka fjárhæðir bóta slysatrygginga almannatrygginga og sjúkradagpeningar um 4,6% og sömuleiðis viðmiðunarfjárhæðir vegna greiðsluþátttöku aldraðra fyrir stofnanaþjónustu. Greiðsluþátttaka lífeyrisþega vegna tannlæknaþjónustu lækkar og sömuleiðis greiðsluþátttaka almennings vegna nauðsynlegra tannlækninga af völdum meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma. Þá eru Sjúkratryggingum Íslands veittar auknar heimildir til að greiða styrki til kaupa á hjálpartækjum fyrir fötluð börn sem eiga heimili á tveimur stöðum.